Glugginn í Hafnarstræti 88 í ævintýraskapi í apríl

Í tilefni af barnamenningarhátíð Akureyrar er GLUGGINN í Hafnarstræti 88 í ævintýraskapi út apríl. Leikföng, sum frá fyrri tíð og ýmis hugðarefni barna og unglinga prýða gluggann í alls konar sviðsmyndum. Gluggasýningin er ætluð til að vekja forvitni, gleði og skapa skemmtilegan áfangastað í gönguferðum. Sýningin hentar öllum aldurshópum.
GLUGGINN er hugverk systranna Brynju Harðardóttur Tveiten myndlistarkonu og Áslaugar Harðardóttur Tveiten sem rekur skrautmunasöluna Fröken Blómfríður. Þær systur hvetja alla sem eiga leið hjá til að taka ímyndunaraflið með og bregða á leik.
Það er t.d. hægt að telja kisurnar og hundana, taka lagið með barbí körlunum, lesa bóka- og plötutitlana, spinna upp sögur, fara í falinn hlut og labba kjánalega meðan gengið er hjá. Að síðustu má ekki gleyma að kíkja í Rauða póstkassann við hlið gluggans, skrifa nafnið sitt í gestabókina, trekkja spiladósina og teygja sig í litla gjöf.