20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Salan á Norðlenska Kjarnafæðis rædd á starfsmannafundi í dag
Eins og Vikublaðið greindi frá í gær fyrst miðla samþykktu hluthafar í Kjarnafæði Norðlenska hf. tilboð Kaupfélags Skagfirðinga um kaup á allt að 100% hlutafjár í Kjarnafæði Norðlenska hf.
Í tilkynningu sem birt var á vef Morgunblaðsins kemur fram að Hluthafar Búsældar ehf., félags bænda sem er eigandi rúmlega 43% hlutafjár, munu ákveða hver fyrir sig hvort þeir selji sína hluti en Eiður Gunnlaugsson, eigandi rúmlega 28% hlutafjár, og Hreinn Gunnlaugsson, eigandi rúmlega 28% hlutafjár, munu selja allt sitt hlutafé.
Morgunblaðið hefur eftir tilkynningunni að meginmarkmið viðskiptanna sé að auka hagkvæmni, lækka kostnað við slátrun og úrvinnslu kjötafurða og auka þannig skilvirkni og samkeppnishæfni innlendrar matvælaframleiðslu bændum og neytendum til hagsbóta.
Kjarnafæði Norðlenska rekur í dag sláturhús og kjötvinnslustöðvar á Húsavík, Svalbarðseyri, Akureyri og Blönduósi. Kaupfélag Skagfirðinga er í samskonar starfsemi á Sauðárkróki, Hvammstanga, Reykjavík og Hellu.
Haft er eftir Ágústi Torfa Haukssyni, framkvæmdastjóra Kjarnafæðis Noðrlenska að viðskiptin séu rökrétt framhald af nýlegum lögum sem heimila framleiðendafélögum að sameinast og hafa með sér verkaskiptingu. „Nú er það verkefni starfsfólks félaganna að raungera þessa hagræðingarmöguleika íslenskum landbúnaði og neytendum til heilla,“ er haft eftir Ágústi Torfa í tilkynningunni.
Boðað hefur verið til starfsmannafundar vegna viðskiptanna klukkan 11:30 í dag en samkvæmt heimasíðu Kjarnafæðis starfa á fjórða hundrað starfsmenn hjá sameinuðu félagi Kjarnafæðis Norðlenska.
Uppfært eftir starfsmannafund:
Haft er eftir Ágústi Torfa á RÚV að engar uppsagnir séu í farvatninu hjá fyrirtækinu. „Nei, það væri mjög einkennilegt. Ég held að fyrirtækið sé afskaplega gott, ágætlega rekið og hefur á að skipa mjög góðu starfsfólki. Þannig ég held það verði engar breytingar hvað það varðar,“ segir hann í viðtali við fréttastofu RÚV.