SAk - Færri ferðamenn hafa leitað á bráðamóttöku í ár
„Það eru alltaf sveiflur í starfseminni. Árið 2023 einkenndist af miklu álagi og gríðarlega mikilli rúmanýtingu en árið í ár er nær því sem eðlilegt þykir á bráðadeildum en oft er talið að um 85% rúmanýting sé eðlilegt viðmið,“ segir Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri.
Töluverð fækkun hefur verið í komum og innlögnum ósjúkratryggða á Sjúkrahúsið á Akureyri, þ.e. ferðamanna miðað við sama tíma í fyrra. Tæplega 400 slíkir hafa leitað á bráðamóttökuna og 54 verið lagðir inni á tímabilinu frá janúar til loka júlí. Á sama tímabili í á liðnu ári höfðu 460 ósjúkratryggðir einstaklingar leitað á bráðamóttöku og 69 verið lagðir inn. Helsta skýring þar á er að færri ferðamenn eru á ferðinni nú í ár en var í fyrra.
Getur breyst
„Fækkun ferðamanna á landsvísu endurspeglast í komum til okkar en það má ekki heldur gleyma því að sumarið er ekki búið og allt getur breyst,“ segir Hildigunnur.
Í starfsemistölum frá Sjúkrahúsinu á Akureyri fyrir fyrstu sjö mánuði ársins kemur fram að um 15% fækkun er á milli ári þegar kemur að fjölda dvalardaga. Þeir voru ríflega 15.100 og að sama skapi fækkar sjúklingum sem þurftu að leggjast inn á þessu tímabili um 10% Einstaklingar dveljast einnig skemur á sjúkrahúsinu en var og er meðalfjöldi dvalardaga 4,5 dagar samanborið við 4,7 í fyrra.
Að meðaltali eru um fimm til sex sjúklingar inniliggjandi á hverjum tíma sem eru búnir í meðferð og bíða eftir endurhæfingu eða plássi á hjúkrunarheimili.
Færri sjúklingar og betri rúmanýting
Ef horft er til rúmanýtingar deilda þá er hún mun minni á öllum deildum. Lyflækningadeild er með 90% nýtingu, skurðlækningadeild með rúmlega 79% og geðdeild með tæplega 65% yfir tímabilið janúar til júlí. Ástæðan er sú sama að útskriftir eiga sér stað fyrr en áður og rúmanýting þannig betri auk þess sem sjúklingar eru færri.
Tæplega 7.700 einstaklingar hafa fengið þjónustu á göngudeild, þar af 1.410 vegna krabbameinslyfjagjafar, samanborið við 1.270 lyfjagjafir í fyrra en stöðug aukning hefur verið í þessari þjónustu.
Fram kemur í starfsemistölum Sjúkrahússins á Akureyri að fæðingum hefur fjölgað í ár, á fyrstu sjö mánuðum ársins höfðu 336 börn fæðst en voru 229 í fyrra.