Saga Maríu Júlíu heldur áfram á Húsavík

Kristján Ben Eggertsson, skipasmíðameistari mun hafa yfirumsjón með vinnunni framundan. Myndir/Hjálm…
Kristján Ben Eggertsson, skipasmíðameistari mun hafa yfirumsjón með vinnunni framundan. Myndir/Hjálmar Bogi.

Í síðustu viku kom hið fornfræga björgunarskip Vestfirðinga, María Júlía BA 36 til hafnar á Húsavík en ætlunin er að gera það upp í Húsavíkurslipp. Undanfarin ár hefur skipið legið við bryggju í Ísafjarðarhöfn í slæmu ásigkomulagi, en hollvinasamtök hafa lengi barist fyrir því að skipið verði endurbyggt enda er það friðað með lögum.

Flutningur skipsins í slipp fékk úthlutun úr ríkissjóði upp á 15 milljónir árið 2022 og gáfu einkaaðilar vilyrði um annað eins. Fyrst var skipið dregið í slipp á Akureyri og hefur verið þar síðasta eina og hálfa árið. Þar var m.a. gerð frumathugun, hreinsun, lagfæring og húsið fjarlægt.

Hvalaskoðunarfyrirtækið Norðursigling hefur nú tekið Maríu Júlíu í fóstur og mun standa að viðgerðum í Húsavíkurslipp. Skipið mun liggja við bryggju á Húsavík þar til framkvæmdum í Slippnum við endurnýjun á dráttarbraut, sleða og hliðarfærslum lýkur en sú vinna er langt komin.

Draumur að fá skipið til Húsavíkur

Kristján Ben Eggertsson, skipasmíðameistari á Húsavík segir í samtali við Vikublaðið að það sé langþráður draumur að fá Maríu Júlíu til Húsavíkur en hann er einn af hollvinum skipsins sem nú telja hundruði einstaklinga.

„Það er búið að berjast fyrir þessu í mörg ár og nú er loksins kominn smá gangur á þetta og búið að vinna talsvert verk nú þegar,“ segir Kristján og bætir við að það hafi verið góð tilfinning að sjá skipið koma til hafnar.

Það eru Hollvinasamtök Maríu Júlíu sem hafa unnið að því að skipið verði gert upp og því fengið nýtt hlutverk. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki nokkur ár.

María Júlía

Merkileg saga

María Júlía er varðskip og björgunarskip sem Landhelgisgæslan notaði sem björgunarskip Vestfirðinga frá 1950 til 1969. Skipið var smíðað úr eik í Frederikssund í Danmörku og er 108 brl, 30,14 metrar mesta lengd, 6,62 metrar á breidd og 3,32 metrar á dýpt.  Heildarkostnaður  við smíði skipsins var á sínum tíma um 1,5 milljónir króna en um 300.000 af þeirri upphæð voru framlög frá slysavarnardeildum á Vestfjörðum. Í skipinu var sérútbúin rannsóknarstofa fyrir fiskifræðinga og fyrir sjómælingar. Skipið var því fyrsti vísir að hafrannsóknarskipi á Íslandi.

Talið er að áhafnir skipsins hafi bjargað um tvö þúsund manns.

Árið 1969 seldi Landhelgisgæslan skipið sem var næstu ár notað sem fiskiskip og gert út frá Patreksfirði og Tálknafirði. Til stóð að selja það til Suður-Afríku en árið 2003 keyptu Minjasafn Egils Ólafssonar á Hnjóti og ByggðasafnVestfjarða skipið með það fyrir augum að gera upp og reka sem safnskip sem gæti siglt milli staða á Vestfjörðum. Árið 2006 var skipið flutt til Patreksfjarðar til viðgerða og árið eftir til Bolungarvíkur og síðan til Þingeyrar. Viðgerð á skipinu hefur staðið yfir síðan.

Mikil vinna framundan

Kristján segir að það sé mikið verk framundan við skrokkvinnuna sem verður unnin að öllu leiti á Húsavík en skipið verði síðan mögulega klárað annars staðar.

„Það voru jafnvel hugmyndir um að seinni hlutanum að verkinu yrði dreift á milli skóla og annarra byggðarlaga. En skrokk vinnan fer öll fram hér,“ segir hann og bætir við að einnig þurfi að smíða nýtt hús á skipið.

„Ég hef trú á að húsið verði smíðað hér á landi. Þetta er samt það viðamikið og stórt verk að menn reyna að hugsa ekki verklegu framkvæmdina alveg frá A-Ö að við einblínum bara á þennan hluta fyrst, þ.e. skrokkvinnuna og timburhlutann allan. Það má alveg reikna með að það fari einhver ár í það,“ útskýrir Kristján og bætir við að saga skipsins sé mjög merkileg og það sé heiður að fá að taka þátt í að rita nýjan kafla í þá sögu.

„Þetta er fyrsta varðskip og björgunarskip sem eitthvað steytti af og það er planið að það fái nýtt hlutverk. Þetta verði kennslu skip og notað jafnvel til rannsókna. Háskólarnir hafa verið að sýna þessu mikinn áhuga og fiskifræðingar og aðrir vilja hafa aðgang að minna skipi eins og af þessari stærð. Það eru ýmsar hugmyndir uppi um framtíðar notkun á skipinu,“ segir Kristján.

Hugmyndir um að sökkva skipinu

Þess má geta að árið 2018 lagði formaður skipulags- og mannvirkjanefndar Ísafjarðarbæjar, Sigurður J. Hreinsson, til að skipinu yrði sökkt á litlu dýpi þar sem það væri aðgengilegt fyrir sportkafara en af því varð aldrei og hafa hollvinasamtökin barist fyrir endurbyggingu þess síðan.

Skipið var upphaflega nefnt eftir Maríu Júlíu Gísladóttur á Ísafirði, en hún og maður hennar, Guðmundur Brynjólfur Guðmundsson, áttu einna stærstan þátt í því að af smíði skipsins gat orðið. Slysavarnasveitir á Vestfjörðum stóðu árum saman fyrir fjársöfnun til þess að standa straum af smíði björgunarskips fyrir Vestfirði, og mest munaði þar um framlag hjónanna sem gáfu aleigu sína í björgunarskútusjóðinn.

 

 

 

Nýjast