Saga Kennedybræðra í nýrri bók
„Fyrst og fremst var afskaplega gaman að vinna þessa bók með þeim bræðrum. Þeir eru húmorískir og taka sig ekki alltaf mjög hátíðlega og það er nokkuð ljóst að þessi eiginleiki hefur nýst þeim vel í öllum þeirra störfum,“ segir Óskar Þór Halldórsson um nýja 370 blaðsíðna bók sem hann hefur skrifað um hina akureyrsku Kennedybræður; Baldur, Vilhelm, Birgi, Skúla og Eyjólf. Bókin, sem Almenna bókafélagið gefur út, er væntanleg á markaðinn í lok nóvember.
Frá Þórshöfn til Akureyrar
„Fyrir utan fjölskyldutengslin er fyrirtækið sem þrír þeirra byggðu upp, Höldur/Bílaleiga Akureyrar, sem rauður þráður í lífi bræðranna. Þann rekstur settu þrír þeirra, Villi, Skúli og Biggi, á stofn árið 1974 og Baldur og Eyfi störfuðu einnig við fyrirtækið. Eyfi meira og minna frá byrjun hér á Akureyri en Baldur stýrði útibúi Bílaleigu Akureyrar í Reykjavík þegar það var sett á stofn snemma árs 1977. Skúli byrjaði að leigja út bíla árið 1966, til hliðar við sín daglegu störf í Landsbankanum á Akureyri, og einnig fóru Villi og Biggi líka að leigja út bíla til hliðar við sín störf. Þetta jókst stig af stigi og að því kom árið 1974 að þeir ákváðu að henda sér út í djúpu laugina og stofna um þetta fyrirtæki. Eitt leiddi af öðru og á undraskömmum tíma var þetta orðin stærsta bílaleiga landsins og svo er enn.
Auðvitað er þessari viðskiptasögu gerð skil í bókinni og á margan hátt er hún stórmerkileg og mikilsverður kafli í atvinnusögu Akureyrar. En þeir bræður segja líka frá mörgum öðrum áhugaverðum hlutum. Fjölskyldan flutti frá Þórshöfn á Langanesi til Akureyrar á haustdögum 1945 en þar höfðu þrír bræðranna, Villi, Biggi og Skúli, fæðst. Baldur, sá elsti, fæddist á ættaróðali móðurættar þeirra á Ásgrímsstöðum í Hjaltastaðaþinghá, en Eyfi, sá yngsti, fæddist á Akureyri. Það var ýmislegt brallað í uppvextinum á Þórshöfn og síðar eftir að fjölskyldan fluttist til Akureyrar. Þeir bræður bregða upp skemmtilegri mynd af Akureyri á sínum uppvaxtarárum þar sem kraftmiklir krakkar fengu útrás í leikjum og íþróttum daginn út og inn. Þeir komu heldur betur við sögu í íþróttum, t.d. skíðum, skautum og fótbolta, og það er dregið fram í bókinni,“ segir Óskar Þór.
Dramatískir atburðir
Frá ýmsum dramatískum hlutum er einnig sagt ítarlega í bókinni, t.d. þegar Villi steyptist á vélsleða sínum ofan í gljúfur Skjálfandafljóts og því kraftaverki að hann skyldi komast lífs af úr þeim raunum. Einnig segir frá tveimur ótrúlegum slysum sem Eyfi lenti í. Í öðru þeirra fékk hann loftsnetsstöng upp í nefið og var með bút úr henni í höfðinu í þrjá mánuði án þess að hafa hugmynd um það.
„Það er von mín að lesendur muni hafa ánægju af því að lesa bókina. Ég hef haft það að leiðarljósi að frásagnargleði bræðranna skili sér á síðunum og einnig er að finna í bókinni frásagnir fjölmargra annarra sem hafa unnið með þeim bræðrum í gegnum tíðina. Ég legg mikið upp úr myndum og því eru í bókinni um þrjú hundruð ljósmyndir. Þær styðja mjög við frásögnina enda er það nú svo að myndir segja alltaf meira en mörg orð. Fjölmargar þessara mynda hafa ekki birst áður,“ segir Óskar Þór Halldórsson.