20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi
„Ég skal fallast á að sumt í bókinni er umdeilanlegt eins og til dæmis umfjöllun um fyrstu múturnar. Þá er ekki alveg víst að allir samþykki að hitaveitan okkar hafi orðið til fyrir vanþekkingu eða hversu smekklegt það er að rifja upp formannskjör þar sem frambjóðandinn var látinn fyrir nokkru. En þá er bara að reka í mig hornin,“ segir sagnfræðingurinn Jón Hjaltason.
Völuspá útgáfa hefur í samvinnu við Minjasafnið á Akureyri gefið út þriðju bókina í ljósmyndabókaröð um Akureyri. Sú fyrsta var Þekktu bæinn þinn, síðan kom Bærinn brennur og nú er það Ótrúlegt en satt. Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu.
Jón segir að líkt og í fyrri bókum sé áhersla lögð á myndefnið og vel hafi tekist til í þeim efnum. Fjölmargar ljósmyndir eru í bókinni sem ekki hafa birst fyrr á prenti.
Líflegur texti tengir fróðleik og myndir.
Kastljósið beinist að sérlyndi Akureyringa
„Ég vona að margt sem um er fjallað í bókinni komi lesendum á óvart,” segir Jón. Sem dæmi nefnir hann að mútur komi við sögu og ástæða þess að Wilhelmína Lever fékk að kjósa, frægustu Oddeyringarnir eru í brennidepli, furðuskepnur á Pollinum og skáldið sem fékk hús að gjöf frá bæjarbúum. Og sé þá fátt eitt upptalið,en einnig koma við sögu í bókinni húsin í Herðubreiðalindum og eins er umfjöllun um af hverju Drottingarbraut heiti því nafni.
Þegar kemur að vatnsveitumálum beinist kastljósið að sérlyndi Akureyringa og ef til vill Íslendinga allra, en fullyrt er að hitaveitan hafi fæðst fyrir misskilning á eðli náttúruaflanna.
Þannig segir höfundur að ekki sé víst að að allt í bókinni, Ótrúlegt en satt. Saga Akureyrar í öðruvísi ljósi, stundum skemmtilegu, stundum sorglegu, jafnvel vandræðalegu en alltaf fróðlegu, verði látið óátalið og sé hann því viðbúinn.
/MÞÞ