20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Rykmengandi starfsemi verður ekki leyfð
Vegna greinar sem birtist hér í Vikudegi 8.febrúar síðastliðinn viljum við oddvitar meirihluta bæjarstjórnar gjarnan upplýsa bæjarbúa og þá sérstaklega íbúa Giljahverfis um stöðu deiliskipulagsvinnu sem er í gangi á Rangárvöllum.
Í stuttu máli má segja að staðan er sú að hvorki skipulagsráð né bæjarstjórn hefur tekið neina ákvörðun sem felur í sér að heimilt verði að byggja upp steypustöð á lóð Rangárvalla 4. Lóðarhafi sendi inn umsókn um breytingu á deiliskipulagi svæðisins í byrjun árs 2018 og 4. apríl samþykkti skipulagsráð að fela sviðsstjóra skipulagssviðs að gera tillögu að breytingu á deiliskipulagi svæðisins. Sú vinna hefur verið í gangi síðan þá og í lok árs voru lagðar fram tvær tillögur að breytingu á deiliskipulagi sem skipulagsráð samþykkti að kynna fyrir hagsmunaaðilum á svæðinu.
Dæmi um skilmála í tillögunum
,,Öll starfsemi sem varðar framleiðslu eða vinnslu efnis á Rangárvöllum 3 og 4 skal fara fram innanhúss.”
“Halda skal loftmengun í lágmarki og skulu gerðar viðeigandi ráðstafanir til þess að hamla gegn loftmengun. Ekki er leyfilegt að geyma efni utanhúss sem geta valdið loftmengun eða svifryki, svo sem möl, sand eða fínefni.”
Nú þegar allar umsagnir liggja fyrir er hægt að vinna málið áfram og ákveða hvort og þá hvaða breytingar þurfi að gera á breytingartillögunni.
Svo að það komi alveg skýrt fram þá er ekki búið að taka ákvörðun um hvort, né þá hvernig, eigi að breyta núgildandi skipulagi svæðisins. Skipulagsmál geta verið viðkvæm. Það er því mikilvægt að vanda til verka enda er regluverk og lagarammi flókinn. Þetta ferli hefur óneitanlega tekið töluverðan tíma en meirihlutinn telur mikilvægt að fá fram öll sjónarmið og upplýsingar áður en málið verður afgreitt. Það loforð sem bæjarfulltrúar gáfu fyrir kosningar um að á umræddum reitum verði ekki heimiluð rykmengandi starfsemi, né önnur mengandi starfsemi sem hafi neikvæð áhrif á búsetu á nærliggjandi svæðum, verður staðið við.
-Guðmundur Baldvin Guðmundsson
-Hilda Jana Gísladóttir
-Halla Björk Reynisdóttir