Rúmur þriðjungur með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu

Höfundur rannsóknarinnar, Sandra Ásgrímsdóttir, með afa sínum, Gunnsteini Sæþórssyni, í réttunum ári…
Höfundur rannsóknarinnar, Sandra Ásgrímsdóttir, með afa sínum, Gunnsteini Sæþórssyni, í réttunum árið 2016. Afi hennar, sem lést 2019, tengist rannsókninni ekki neitt en niðurstöður hennar sýna að rúmlega þriðji hver eldri borgari sem er í sjálfstæðri búsetu og nýtur þjónustu frá heimahjúkrun, er með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu.

Sjúkrahúsið okkar

Sandra Ásgrímsdóttir lauk nýverið rannsókn á næringarástandi eldra fólks í sjálfstæðri búsetu á Akureyri og nágrenni. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 36% einstaklinga í sjálfstæðri búsetu á þessu svæði með þjónustu frá heimahjúkrun HSN eru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Sandra kemst að þeirri niðurstöðu að þörf sé á forvörnum og íhlutandi aðgerðum til að stuðla að fullnægjandi næringarinntekt eldra fólks í sjálfstæðri búsetu.

Ekki hafa verið gerðar sambærilegar rannsóknir í öðrum sveitarfélögum á Íslandi en erlendar rannsóknir hafa sýnt svipaðar niðurstöður, að sögn Söndru. Hún segir niðurstöður rannsóknarinnar ítreka mikilvægi tilmæla Embættis landlæknis um að skima hóp eldra fólks árlega fyrir áhættu á vannæringu.

Sá þjóðfélagshópur sem vex hraðast

SAndra í slökkviliðinu

Aldraðir, 65 ára og eldri, eru sá þjóðfélagshópur sem vex hvað hraðast og gera spár Sameinuðu þjóðanna ráð fyrir að árið 2050 verði aldraðir 38% mannkyns. Alþjóðaheilbrigðismálastofnun (WHO) hefur lýst málefninu „Heilbrigð öldrun“ sem forgangsverkefni áranna 2016-2030 og hefur sett fram viðmið sem leggja áherslu á þörfina fyrir aðgerðir á mörgum sviðum. Aðalmarkmiðið er að gera eldra fólki kleift að þróa og viðhalda þeirri getu sem færir því vellíðan og getu til að taka þátt í samfélaginu.

Viðhald góðrar heilsu á seinni hluta lífsleiðarinnar er stór lýðheilsuáskorun og hafa rannsóknir á sviði öldrunar beinst að því að framlengja þann tíma sem fólk nýtur heilbrigðis á lengdum lífstíma. Lífeðlisfræðilegar breytingar sem fylgja öldrun auka viðkvæmni fyrir sjúkdómum, fötlunum og byltum.

Niðurstöðurnar hringja mörgum viðvörunarbjöllum

Rannsóknir framkvæmdar á stofnunum hér á landi hafa leitt í ljós að vannæring sé algeng meðal eldra fólks og hafi víðtæk áhrif á heilsu og líðan, að sögn Söndru. Rannsókn Katrínar Sifjar Kristbjörnsdóttur á Landspítalanum (LHS) sýndi að 66% skjólstæðinga voru með ákveðnar eða sterkar líkur á vannæringu. Ásdís Lilja Guðmundsdóttir gerði rannsókn á sömu deildum LHÍ 2019 og þá var talan 49%. Greint hefur verið frá sambærilegum niðurstöðum á sjúkrahúsum á hinum Norðurlöndunum.

Sandra segir að rannsókn Berglindar Soffíu Blöndal meðal íbúa á Heilsuvernd, hjúkrunarheimilum á Akureyri árið 2021, hafi leiddi í ljós að 56,3% íbúa voru vannærð eða í mikilli áhættu á vannæringu ásamt því að 24,4 % voru í áhættu á vannæringu.

Mjög fáar rannsóknir hafa á hinn bóginn verið gerðar á stöðu eldra fólks í sjálfstæðri búsetu. „Þær rannsóknir sem hafa verið framkvæmdar hér á landi hafa fyrst og fremst beinst að eftirfylgni skjólstæðinga eftir útskrift af sjúkrahúsi. Að því leyti skipar rannsókn mín ákveðna sérstöðu og niðurstöðurnar hringja mörgum viðvörunarbjöllum,“ segir hún.

Margir styrkleikar

Alls uppfylltu 193 skjólstæðingar, 80 karlar og 113 konur, skilyrði um þátttöku í rannsókn Söndru.

Miðgildi aldurs var 84 ára; yngsti þátttakandinn var 65 ára og sá elsti 99 ára. Alls fengu 64% þátttakenda 0-2 stig og því litlar líkur á vannæringu, 31% fékk 3-4 stig og höfðu ákveðnar líkur á vannæringu og 5% þátttakenda fengu 5 stig eða fleiri og því með sterkar líkur á vannæringu. Ekki var marktækur munur á milli kynja.

Sandra segir að helstu styrkleikar rannsóknarinnar felist í góðu samstarfi við starfsfólk heimahjúkrunar HSN, gögn hafi fengist um alla skjólstæðinga sem uppfylltu sett skilyrði, að gögnum hafi verið safnað af fagfólki sem bundið er þagnarskyldu og að sama aðferð sé notuð á öllum heilbrigðisstofnunum á landinu ef fleiri rannsóknir verði gerðar. Þá sé mælitækið „Mat fyrir áhættu á vannæringu“ viðurkennt og þyki áreiðanlegt. Það hafi verið notað í rannsóknum á sjúkrastofnunum síðustu áratugi og því auðvelt að bera saman niðurstöður og meta árangur fræðslu og íhlutana. Helsti veikleikinn sé hve lítið úrtakið í rannsókninni var.

Vannæring meðal eldra fólks er dýrkeypt

Tap á fitufríum massa getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér því sjúkdómar eins og vöðvarýrnun og hrumleiki ganga almennt ekki til baka og geta versnað hratt við minnstu breytingu. Sandra segir vannæringu meðal eldra fólks kosta samfélagið, heilbrigðiskerfið og einstaklinginn mikla fjármuni – að ekki sé talað um skert lífsgæði. „Beinn kostnaður af byltum og brotum er áætlaður 1,6-2 milljarðar evra á Írlandi og eykst jafnt og þétt með hækkandi aldri íbúa. Á Englandi er talið að kostnaður vegna vannæringar og næringarvandamála sem afleiðingu annars sjúkdómsástands sé um 15% kostnaðar heilbrigðiskerfisins,“ segir hún.

„Það er aukin þörf á heilsueflandi íhlutunum til að lágmarka þessa byrði en ein þeirra felur í sér að aðstoða aldraða við að ná næringarfræðilegum viðmiðum sínum.“ Hún segir að skimun fyrir áhættu á vannæringu sé fljótleg og einföld rannsókn en skimunum hafi ekki verið sinnt eins og ráðlagt er.

            Ef litið er á aðlagaðan þyngdarstuðul frá Embætti landlæknis (2018) voru 15% þátttakenda undir kjörþyngd, helmingur í kjörþyngd og 35% í yfirþyngd eða með offitu. Sandra segir niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hátt hlutfall fólks í yfirþyngd glími við ósjálfrátt þyngdartap og/eða við viðvarandi lélega matarlyst eða ógleði.

„Nauðsynlegt er að efla menntun og fræðslu á þessu sviði ásamt því að vinna að öflugri teymisvinnu með næringarfræðingum og stuðla þannig að heilbrigðri öldrun ásamt farsælum og innihaldsríkum efri árum,“ segir Sandra Ásgrímsdóttir.

Sandra Rammi

 

Nýjast