Ringulreiðin í Hagahverfi

Hjörleifur Hallgríms.
Hjörleifur Hallgríms.

Eins og það er yndislegt að búa í jafn fallegum bæ og Akueyri og tiltölulega gott mannlíf er ömurlegt til þess að vita að heilt hverfi sé gjörsamlega
eyðilagt skipulagslega miðað við skipulag fyrri hverfa á Akureyri yfirleitt þar sem vel hefur til tekist. Á góðviðrisdegi fyrir nokkru hringdi í mig góður kunningi og vildi bjóða mér í bíltúr.

Allt í lagi sagði ég, án þess að spyrja frekar út í það því mér datt í hug fram í Eyjafjarðarsveit (gamla Saurbæjarhreppinn) þar sem ég er alinn upp að miklu leyti fram að fermingu og kunninginn vissi að mér var ákaflega kær sú sveit. En það var öðru nær, því eftir að hafa náð í mig á nýjum, flottum bílnum tók hann stefnuna á Naustahverfið, nánar tiltekið þar sem kallað er Hagahverfi og er sunnan við Naustabæina.

Það kom sér vel að í nýja, flotta bílnum var GPS tæki, sem kom í veg fyrir að við villtumst í þessari skipulagslegu ringulreið, sem þetta hverfi er. Kunningjanum var mikið niðri fyrir þegar að GPS tækið vísaði okkur á einhverja götumynd sem hafði verið gefið nafnið Geirþrúðarhagi og benti mér á lágreist einnar hæðar raðhús sem hann og sambýliskonan hefðu ætlað að kaupa íbúð í. En við nánari athugun og eftir að hafa ráðfært sig við fagmenn hefði komið í ljós að þegar yrði búið að fela það inn á milli hárra íbúðablokka yrði útsýnið ekki neitt og varla sæist til sólar, þá yrði þetta ekki spennandi heimili.

Þau hættu auðvitað við að kaupa og sagði kunninginn að þau væru ekki eina dæmið þar sem einnar hæðar rað­hús væru falin eins og ofan í laut, há­hýsum raðað allt um kring og ekkert útsýni yrði fyrir íbúana í einnar hæðar húsunum. Ömurlegt skipulag og niðurröðun húsa.

Bæjarstjórnin svarar ekki

Í gangi eru samningar á milli húsnæðissamvinnufélagsins Búfesti annars vegar og EBAK hins vegar, en það er Félag eldri borgara á Akureyri, um að byggja m.a. leiguíbúðir fyrir lágtekjufólk og sérgreinda hópa og leiguíbúðir í samstarfi við hagsmunafélag eins og EBAK. Flestar íbúðir yrðu á bilinu 50­-90 fm. Aðilarnir að málinu hafa augastað á og bent á lóð í Naustahverfi nyrðra, sem er laus en eins og í mörgum öðrum málum hjá bæjarstjórninni dregur hún lappirnar og svarar ekki.

Þetta er gott og markvert framtak hjá EBAK og Búfesti því vitað er um sára vöntun á m.a. ódýru húsnæði og sérlega leiguhúsnæði, enda upp í 4 ára biðlistar hjá Akureyrabæ þar sem ekkert raunhæft hefur verið gert í þeim málum. Bærinn hefði t.d. getað keypt þó nokkuð margar íbúðir til útleigu fyrir þær 500 milljóna óráðssíu sem umframeyðslan nam í sambandi við Listasafnið og verður lengi í minnum haft. Fleira mætti til taka og enginn gerður ábyrgur.

Heyrst hefur að bæjarstjórnin ætli að taka út slagorðið „Akureyri öll lífsins gæði“ og er það auðvitað til marks um arfalélega stjórn bæjarins að það sé ekki lengur gott að búa á hinni yndislegu Akureyri ef rétt væri haldið á spöðunum. Svo vælir bæjarstjórnin um sífækkandi íbúa hér, en er það einhver furða þegar vísað er til frámuna lélegra bæjarfulltrúa, sem virðast vera í allt öðru en að stjórna bænum af einhverju viti? Meira seinnna.

-Hjörleifur Hallgríms

Nýjast