13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Ríflega níu milljörðum króna varið í fræðslumál á árinu 2022
Á heimasíðu Akureyrarbæjar er greint frá því að fræðslumál séu líkt og undanfarin ár fyrirferðarmest þegar kemur að forgangsröðun fjármuna Akureyrarbæjar. Ríflega níu milljörðum króna verður varið í fræðslumál á árinu 2022, eða um 467 þúsund krónum á hvern íbúa, samkvæmt nýsamþykktri fjárhagsáætlun bæjarins. Útgjöld til málaflokksins aukast um hátt í 600 milljónir króna á milli ára.
Rekstur leik- og grunnskóla, tónlistarskóla og annarrar fræðslustarfsemi stendur fyrir um 43% af útgjöldum aðalsjóðs.
Álag vegna yngstu barna fellt niður
Miklar framkvæmdir hafa einkennt málaflokkinn að undanförnu, svo sem bygging leikskólans Klappa og endurbætur á grunnskólum sem áfram er unnið að. Samhliða hefur verið lögð áhersla á að auka þjónustuna, einkum með því að bjóða yngri börnum en áður leikskólapláss. Þannig voru börn allt niður í 12 mánaða tekin inn í nokkra leikskóla bæjarins í september sl. og er áfram gert ráð fyrir þeirri mikilvægu þjónustu í fjárhagsáætlun næsta árs.
Bæjarstjórn samþykkti í síðustu viku, í tengslum við fjárhagsáætlun og gjaldskrár, að fella niður 10% álag sem hafði verið lagt á leikskólagjöld vegna barna yngri en 24 mánaða. Í stað þess hækkar almenn gjaldskrá leikskóla um 4,5% um áramót. Fyrir barn yngra en 24 mánaða, sem dvelur 8 tíma í leikskólanum og fær fullt fæði, lækkar mánaðargjald úr 43.025 kr. í 41.710 kr. eða um 1.315 kr. Fyrir eldri börn með átta tíma dvöl og fullt fæði hækkar gjaldið úr 39.961 kr. í 41.710 kr. eða um 1.749 kr.
- Akureyrarbær rekur níu leikskóla auk þess að veita framlög til reksturs eins einkarekins leikskóla.
- Áætlaður heildarfjöldi barna í leikskólum bæjarins árið 2022 er 970.
- Áætluð framlög Akureyrarbæjar á hvert leikskólabarn eru að meðaltali um 2,9 milljónir króna á árinu 2022 og er kostnaðarþátttaka foreldra að meðtali 13%
Fjárhags- og framkvæmdaáætlun Akureyrarbæjar fyrir árið 2022, auk þriggja ára áætluna 2023-2025, var tekin til síðari umræðu og samþykkt á fundi bæjarstjórnar á þriðjudaginn. Smelltu hér til að kynna þér áætlunina í máli og myndum.