Rétturinn til að leggja niður störf er ótvíræður
Eining-Iðja fól Starfsgreinasambandi Íslands umboð sitt í upphafi yfirstandandi kjaraviðræðna. Sambandið hefur nú slitið viðræðunum við Samtök atvinnulífsins eftir að fundað hafði verið nánast daglega í nokkrar vikur undir verkstjórn Ríkissáttasemjara.
Vissulega hefur ýmislegt áunnist við samningaborðið og annað þokast í rétta átt. Veigamikil atriði eru að þó óleyst og þess vegna voru atvinnurekendur krafðir um nýjar tillögur, að öðrum kosti væri ekkert annað í stöðunni en að slíta viðræðum með tilheyrandi aðgerðum í kjölfarið.
Ekkert nýtt barst frá vinnuveitendum og því var viðræðunum slitið. Þolinmæði verkafólks er ekki endalaus og það vita vinnuveitendur mæta vel.
Grundvallarréttur að knýja á um bætt kjör
Fjölmennur aðalfundur Einingar-Iðju var haldinn í síðustu viku.
Aðalfundur er æðsta vald í málefnum félagsins, sem hefur m.a. þann tilgang að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum félagsmanna, svo sem með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt félagsmanna.
Á aðalfundinum var eftirfarandi ályktun samþykkt með lófaklappi.
„Aðalfundur Einingar-Iðju, haldinn í Hofi 21. mars 2019 lýsir yfir fullum stuðningi við boðuð verkföll félaga okkar í Eflingu og VR. Um leið hvetjum við félagsmenn okkar til þess að ganga alls ekki í störf félagsmanna þessara félaga. Það er áríðandi að við styðjum baráttu félaga okkar fyrir bættum kjörum.
Það er grundvallarréttur vinnandi fólks að bindast samtökum og leggja niður vinnu til að knýja á um bætt kjör. Sá réttur er óvéfengdur og allar tilraunir til að grafa undan honum með verkfallsbrotum er alvarleg árás á mannréttindi vinnandi fólks.”
Traustar stoðir
Undirbúningur kröfugerðar vegna kjaraviðræðnanna var áberandi í starfsemi félagsins á nýliðnu ári. Fjölmargir fundir voru haldnir og félagsmenn tóku virkan þátt í mótun kröfugerðarinnar.
Á þessum fundum kom berlega í ljós að stoðir Einingar-Iðju eru sterkar, og vandaður undirbúningur er lykillinn að kröftugri kjarabaráttu.
Nú má ljóst vera að næstu vikur skera úr um hvort samningar takast við vinnuveitendur. Kröfugerð verkafólks er eðlileg og sanngjörn og er flestum vel kunn. Samstaða er sterkasta vopn verkalýðshreyfingarinnar, svo mikið er víst.
Verkföll eru neyðarúrræði
Réttur vinnandi fólks til að bindast samtökum og leggja niður störf til að knýja á um betri kjör er ótvíræður. Þessi réttindi eru varin í lögum og stjórnarskrá.
Aðgerðir verkafólks í þessum efnum eiga ekki að koma vinnuveitendum eða öðrum á óvart.
Sagan sýnir okkur að samstaða skilar árangri. Verkalýðshreyfingin hefur undirbúið kröfur sínar af kostgæfni og telur þær raunhæfar og sanngjarnar.
Kröfur verkslýðshreyfingarinnar flokkast ekki undir heimtufrekju.
Langt frá því.
-Höfundur er formaður Einingar-Iðju og Starfsgreinasambands Íslands.