20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Ósammála og sammála ritstjóranum
Ég er ósammála Þresti ritstjóra að breyta nafninu á blaðinu úr því ágæta og sérstaka nafni VIKUDAGUR í hið þreytta nafn Vikublaðið, sbr. Morgunblaðið, Fréttablaðið, Viðskiptablaðið o.s. frv. Þegar að ég kom heim til Akureyrar eftir nokkra „útilegu“ og stofnaði blaðið Vikudag, en fyrsta blaðið kom út 5. desember 1997, var ég öldungis óviss í fyrstu með nafngift á blaðið og hafði samband við góðan kunningja, Ragnar Lár myndlistarmann með meiru og bað hann um uppástungur að nafni.
Ragnar brást vel við og sendi mér okkrar uppástungur en strax og ég sá nöfnin kom ekki annað til greina en nafnið Vikudagur og þar þóttist ég tengja saman að blaðið átti að koma út vikulega og svo ekki síðra að þarna þóttist ég hafa tenginu við hið gamla og vinsæla blað DAGUR. Ég er því ósammála nýja nafninu en ræð auðvitað engu héðan af, en hef þó stjórnarskrárvarinn rétt til að hafa skoðanir og láta þær frá mér í munnlegu og eða rituðu máli.
Sammála ritstjóranum
En ég er óskaplega sammála Þresti þegar hann í leiðara síðasta blaðs talar um furðulega ákvörðun Akureyrarbæjar, sem er svo sannanlega ekki sú eina furðulega en það er svo önnur saga. Að ætla að afleggja þetta vinsæla tjaldsvæði við Þórunnarstræti, sem verið hefur til fjölda ára bæjarbúum og aðkomufólki til ómældrar ánægju og gleði, prýði á bænum og stutt í alla þjónustu. Þó útivistarsvæðið að Hömrum sé vel lukkað og gert er það nokkra kílómetra frá byggð og óhentugt að því leiti.
Það verður t.d. ekki sendur krakki eftir mjólkurlítra eða brauðbita svo langt frá byggð eins og hægt er við Þórunnarstrætið þar sem Byggðavegs útibúið er við hliðina. Þó misvitrir menn hafi fyrir stuttu reynt að halda sjómannadaginn upp á Hömrum sér hver maður sem er með sæmilega opin augun að slíkt stenst ekki þar sem sést ekki einu sinni til sjávar og lítil falleg tjörn býður ekki upp á kappróðrarkeppni. Ef bæjarstjórn Akureyrar hefur hinn minnsta áhuga á að hlusta þá er eins og Þröstur ritstjóri benti réttilega á að lóðin fyrir hótelbyggingu, sem bærinn er margbúinn að auglýsa, er sú heppilegasta fyrir heilsugæslustöð austari hluta bæjarins. Kannski ættum við að fara út í undirskriftasöfnun Þröstur?
-Hjörleifur Hallgríms