Orkuveita Húsavíkur verði bakhjarl Völsungs

Á fundi stjórnar Orkuveitu Húsavíkur (OH) í gær var samþykkt að Orkuveitan yrði sérstakur bakjarl íþróttafélagsins Völsungs til næstu þriggja ára og að gerður verði viðauki við fjárhagsáætlun upp á 1,5 milljónir króna.

Ekki var þó full eining um tillöguna innan stjórnar OH en Valdimar Halldórsson, varaformaður greiddi atkvæði á móti. Í bókun hans kom m.a. fram að hann teldi óeðlilegt að OH styrki eitt tiltekið samfélagsverkefni utan fjárhagsáætlunar og framhjá Samfélagssjóði OH.

„Samfélagssjóður Orkuveitunnar var stofnaður í samfélagslegum tilgangi og er með til úthlutunar 2,5 milljónir króna árlega. Völsungur ættu með réttu að sækja um í þann sjóð fyrir tiltekin verkefni sem samrýmast úthlutunarreglum sjóðsins. Með því að styrkja eitt samfélagsverkefni af fjárlögum félagsins er komið fordæmi sem eykur líkur á að aðrar umsóknir muni berast Orkuveitunni um langtíma bakhjarlastyrki sem þýðir að þá þarf mögulega aftur að gera viðauka við fjárhagsáætlun,“ segir í bókuninni.

Sigurgeir Höskuldsson, formaður stjórnar og Eysteinn Heiðar Kristjánsson greiddu atkvæði með tillögunni og létu bóka að æskulýðsstarf væru mikilvægt í öllum sveitarfélögum.

„Flest ungmenni af starfsvæði OH stunda íþróttir á vegum Völsungs. Sú starfsemi ýtir undir heilbrigði og er liður í forvörnum ungmenna á svæðinu. Það ætti því að vera með stolti að OH geti styrkt þessa starfsemi,“ segir í bókuninni.

Nýjast