Örfá orð um innanlandsflugvelli
Málefni innanlandsflugvalla hafa verið í brennidepli undanfarið, m.a. vegna illviðris sem raskað hefur flugi til margra áfangastaða síðustu daga. Fram hefur komið að flugvélar ferðaskrifstofunnar Super Break, sem nýlega hóf beint flug milli Akureyrar og Edinborgar í Skotlandi, hafa í tvígang þurft frá að hverfa vegna éljagangs á Akureyri. Talið er nokkuð vízt að þær hefðu getað lent þar ef nákvæmnisaðflugsbúnaður hefði verið til staðar. Talið er að slíkur búnaður muni kosta 70-100 milljónir króna og bendir margt til þess að að fjármögnun hans sé tryggð. Það er nú aldeilis prýðilegt ef rétt reynist, en betur má ef duga skal.
Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra samgöngumála, sagði í fréttatíma Stöðvar 2 þann 17. janúar síðastliðinn að það væru „ekkert endilega mjög margir hundruðir milljóna ... en það eru einhverjir slíkir hundraðmilljónakallar“ sem þurfi til að bæta ástand innanlandsflugvalla og að „við þurfum að kortleggja það hvernig það gerist á sem skynsamlegastan hátt“. Mér er ekki alveg ljóst hvað felst í þeim orðum ráðherrans að það þurfi að kortleggja hvernig að þessu verður staðið. Það liggur alveg fyrir hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar, enda eru til upplýsingar um hvaða framkvæmdir eru nauðsynlegar á hverjum einasta flugvelli. Auk þess er alveg ljóst að uppsafnaður kostnaður hleypur á milljörðum. Vitanlega verður að gæta ráðdeildar við ráðstöfun skattfjár en sá grunur læðist að mér að ráðherrann sé að tala um forgangsröðun fjármagns sem skammtað verður úr hnefa. Við þekkjum það of vel af biturri reynzlu, því miður.
Í ársskýrzlum og aðalfundargerðum ISAVIA undanfarin ár, kemur fram að 600 milljónir séu nauðsynlegar að lágmarki til viðhalds þeirra 12 innanlandsflugvalla sem félagið hefur á sínu forræði á hverju ári. Þar er oftar en ekki fjallað um snautlegar fjárveitingar og afleiðingar þeirr. Á einum stað segir m.a.: „Frá stofnun félagsins [ISAVIA] hefur verulega verið dregið úr framlögum í þennan málaflokk.“ Á öðrum stað segir: „ISAVIA hefur metnað til að gera innanlandsflug að raunverulegum valkosti í almenningssamgöngum landsmanna.“ Að lokum: „Öryggi flugs er í forgrunni og ýmsum framkvæmdum hefur verið frestað.“ Svo mætti lengi telja. Þetta eru svo sem engar nýjar fréttir fyrir þá sem nota innanlandsflug, eða hafa fylgst með því undanfarin misseri.
Ráðherra samgöngumála ætti að vera ljóst, líkt og öllum þeim sem kynna sér málavöxtu, að hér þarf að gera stórátak. Nokkur hundruð milljónir munu duga skammt til að vinna á uppsafnaðri viðhaldsþörf, sem er tilkomin vegna áralangs sinnuleysis fjárveitinga- og framkvæmdavalds. Þær munu heldur ekki duga til nýframkvæmda, t.d. við flughlað og stækkun flugstöðvarinnar á Akureyri, að ekki sé minnst á aðra innanlandsfluvelli.
Það er alveg ljóst að þetta ástand er ekki tilkomið vegna náttúruhamfara, heldur vegna þess að pólitískir meirihlutar ríkisvaldsins hafa vanrækt þessar mikilvægu samgöngumiðstöðvar okkar með fjársvelti ár eftir ár, fullkomlega meðvitaðir um afleiðingarnar. Nú þurfum við sem búum utan höfuðborgarsvæðisins að taka höndum saman og krefjast úrbóta sem bragð er að. Nokkrir „hundraðmilljónakallar“ hrökkva skammt þegar byggja á upp innviði fyrir flugsamgöngur. Gerum kröfu um meira!
Höfundur er fyrrverandi þingmaður Pírata