Opna kaffihús á Listasafninu

Hjónin Marta Rún og Ágúst Már og Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins handsala samninginn.
Hjónin Marta Rún og Ágúst Már og Hlynur Hallsson safnstjóri Listasafnsins handsala samninginn.

Fulltrúar Listasafnsins á Akureyri og hjónin Marta Rún Þórðardóttir og Ágúst Már Sigurðsson, eigendur Þrúgur ehf., skrifuðu nýverið undir samning um rekstur kaffihúss í Listasafninu. Eftir endurbætur og stækkun verða byggingarnar tvær sem Listasafnið hefur haft til umráða, annars vegar gamla Mjólkursamlag KEA og hins vegar Ketilhúsið, sameinaðar með tengibyggingu og munu þá mynda eina heild.

Glæsilegir sýningasalir verða opnaðir í sumar á sama tíma og kaffihúsið, sem mun bera nafnið Gil. Þrír aðilar sóttu um reksturinn og lögðu tillögur sínar fyrir fimm manna dómnefnd sem skipuð var Almari Alfreðssyni, verkefnastjóra menningarmála, Guðríði Friðriksdóttur, sviðsstjóra Umhverfis- og mannvirkjasviðs, Hildi Friðriksdóttur úr stjórn Akureyrarstofu, Hlyni Hallssyni, safnstjóra Listasafnsins, og Leifi Hjörleifssyni sem er óháður aðili.

Í umsögn dómnefndar um tillögu Mörtu Rúnar og Ágústs Más segir meðal annars: „Hugmyndin er metnaðarfull, vel ígrunduð og fellur vel að ásýnd Listasafnsins. Framúrskarandi sérþekking á kaffi og góð reynsla af daglegum rekstri kaffihúsa. Hugmyndir um samstarf við Listasafnið varðandi viðburði og opnunartíma allt árið um kring eru áhugaverðar og skapa sérstöðu.“

Nýjast