20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Opið bréf til lýðveldisbarna
Í tilefni alþingiskosninga 25. september 2021.
Þið sem fædd eruð áður og um það leyti sem lýðveldið Ísland var stofnað. Ykkur var gefið loforð: Ykkur var heitið því af foringjum allra stjórnmálaflokka, að um leið og sjálfstæðismálið yrði í höfn 17. júní 1944 skyldi þjóðin semja sér sína eigin stjórnarskrá.
Loforðið var aldrei efnt af stjórnmálaflokkunum þótt rekið væri á eftir því. Það gerði til dæmis Sveinn Björnsson forseti Íslands (1944-1952) í nýársávarpi sínu árið 1949:
„Og nú, hálfu fimmta ári eftir stofnun lýðveldisins rofar ekki enn fyrir þeirri nýju stjórnarskrá, sem vér þurfum að fá sem fyrst og almennur áhugi var um hjá þjóðinni og stjórnmálaleiðtogunum, að sett yrði sem fyrst. Í því efni búum vér enn við bætta flík, sem sniðin var upprunalega fyrir annað land, með öðrum viðhorfum, fyrir heilli öld.”
Guðni Th. Jóhannesson, núverandi forseti Íslands, lýsti málinu svona:
„Í aðdraganda lýðveldisstofnunar vildu ráðamenn á Alþingi réttilega stefna að einingu þjóðarinnar. Þeir vissu að samstaðan næðist ekki ef stjórnmálaflokkarnir tækjust á um nýja stjórnarskrá. Því var ákveðið að lögfesta lítt breytta stjórnarskrá til bráðabirgða en endurskoða hana svo við fyrsta tækifæri. Lýðveldið sem Íslendingar stofnuðu skyldi vara um aldur og ævi en stjórnarskráin ekki, enda mátti ennþá sjá að hún hafði að miklum hluta verið samin í danska kansellíinu eins og Jón forseti komst að orði á sínum tíma. Því má segja – með stjórnarskrána í huga – að 17. júní 1944 hafi Íslendingar tjaldað til einnar nætur á Þingvöllum, í gömlu dönsku tjaldi.”
Loforðið um nýja stjórnarskrá var gefið ykkur, lýðveldiskynslóðinni, en vanefndirnar varða líka afkomendur ykkar. Einnig þeir búa enn við úrelta stjórnarskrá. Hins vegar gerðist það óvænt að sameiginlega tókuð þið málin í eigin hendur. Þið og afkomendur ykkar unnuð afrek sem vakið hefur heimsathygli: Í kjölfar Hrunsins 2008 létu stjórnmálaflokkarnir undan háværri kröfu almennings um nýja stjórnarskrá. Efnt var til þjóðfundar árið 2010 og skipað stjórnlagaráð fulltrúa sem kjósendur höfðu valið í almennum kosningum. Stjórnlagaráði var falið að skila Alþingi frumvarpi með tillögum að nýrri og endurskoðaðri stjórnarskrá lýðveldisins. Frumvarpið að nýju stjórnarskránni var afhent Alþingi á tilsettum tíma í júlí 2011. Þann 20. október 2012 var frumvarpið síðan borið efnislega undir landsmenn í þjóðaratkvæðagreiðslu. Yfir 2/3 hlutar kjósenda (67%) samþykktu að það skyldi verða grundvöllur nýrrar stjórnarskrár lýðveldisins Íslands.
Ætla mátti að málið væri þar með í höfn. Þjóðin hafði sjálf efnt loforðið frá 1944, samið sér og samþykkt sína eigin stjórnarskrá. Ekki var annað eftir en að Alþingi lögfesti nýju stjórnarskrána, lýðræðislegan vilja landsmanna. Nú, bráðum níu árum síðar, hefur Alþingi hins vegar ekki enn virt úrslit atkvæðagreiðslunnar. Er þetta í fyrsta skipti sem það hefur gerst að Alþingi – þingmenn - virði ekki úrslit þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vigdís Finnbogadóttir, forseti Íslands (1980-1996), lýsir þessu svo:
„Í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008 hratt Alþingi af stað stórmerkilegu ferli sem ætlað var að láta drauminn um nýja stjórnarskrá loks rætast. Framtakið vakti athygli víða um heim enda um að ræða eitt víðtækasta og lýðræðislegasta stjórnarskrárferli sem vitað er um. Stjórnlagaráð var þjóðkjörið. Þar hljómuðu því margvíslegar raddir samfélags okkar á Íslandi og drög voru gerð að nýrri stjórnarskrá með samþykki allra meðlima Stjórnlagaráðsins. Auk þess kom fram í þjóðaratkvæðagreiðslu yfirgnæfandi vilji meirihluta íslenskra kjósenda til þess að nýja stjórnarskráin öðlaðist gildi. Enn sem komið er hefur Alþingi ekki auðnast að koma til móts við þann vilja. Að mínu mati hefur íslenska þjóðin beðið nógu lengi eftir nýrri stjórnarskrá … .”
Kosið verður til Alþingis 25. september næstkomandi. Við heitum á ykkur sem lesið þetta bréf að krefja frambjóðendur svara um afstöðu þeirra til nýju stjórnarskrárinnar. Hvernig geta þeir réttlætt að hafa að engu úrslit lýðræðislegra kosninga? Ætla stjórnmálaflokkarnir enn að standa í vegi fyrir því að loforðið frá 1944 verði efnt eða ætla þeir að standa með almenningi og lýðræðislegum stjórnarháttum í landinu? Engum stendur nær en ykkur, lýðveldisbörnum, að krefjast svara.
Þegar íslenska lýðveldið sleit barnsskónum hefði það aldrei gerst að Alþingi virti ekki niðurstöðu kosninga. Okkur hefur því borið af leið og við þurfum að rétta kúrsinn. Krefjumst þess saman að vera fullvalda þjóð og látum fallegustu drauma okkar um Ísland rætast. Sjáum til þess að loforðið frá 1944 verði efnt.
VIÐ EIGUM NÝJA STJÓRNARSKRÁ! Kjósum aðeins framboð sem virða grundvallarreglur lýðræðisins og vinna af heilindum að því að nýja stjórnarskráin verði lögfest.
F. h. Stjórnarskrárfélagsins,
Hjörtur Hjartarson.