20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Opið bréf til bæjarstjórnar
Fyrir rúmu ári síðan fór ég á fund sveitarstjóra okkar vegna hækkunar á leigu hjá Norðurþingi. Ég tek fram að ég var búin að reyna leita eftir svörum hjá bæjarstarfsmönnum en fékk aldrei almennileg svör við þessari hækkun svo ég ákvað að fara og biðja um fund hjá æðsta manninum (sveitastjóra) og fékk það.
Að sjálfsögðu gat hann útskýrt þessa hækkun á leigunni, sem er veruleg. Við leigjendur hjá Norðurþingi urðum að taka þessari hækkun þegjandi og hljóðalaust því ekki getum við farið neitt annað (allavega flest okkar). Á þessum góða fundi hjá sveitarstjóranum okkar, Kristjáni sem ég ber mikla virðingu fyrir, áttum við gott spjall um fjölskyldur og hve oft er erfitt fyrir suma að ná endum saman.
Ég ber svo upp spurningu fyrir hann; hvort Norðurþing hafi aldrei hugsað út í að vera með svokallaðar „sérstakar húsaleigubætur?“ ( eins og sum sveitarfélög eru með). Ég fæ þá svar um að það sé nefnd (veit ekki hvaða nefnd) sem hafi tekið þetta fyrir og því hafi verið hafnað en þetta yrði tekið fyrir aftur síðar. Það var svo gert og þetta samþykkt, get ekki alveg sagt til um hvenær þetta var samþykkt en mig minnir síðasta vor (2016). Að sjálfsögðu þurfti manneskjan sem sótti um að uppfylla viss skilyrði sem og undirrituð gerði.
Um áramótin síðustu þá breyttust hjá ykkur viðmiðin og reglurnar um þennan sérstaka stuðning og langar mig að vita og reyna að skilja hvað það var sem þið breyttuð og hvaða önnur viðmið þið eruð með? Vegna þess að ég get ekki skilið þessar útskýringar sem ég hef fengið og var að vona að einhver ykkar gæti útskýrt fyrir mér og öðrum hvaða viðmið og reglur þið eruð með.
Með von um góð og skjót viðbrögð
Harpa Steingrímsdóttir