Ómetanlegt að eiga þessa sögu

Ragnar Sverrisson kaupmaður með bókina Höndlað við Pollinn – saga verslunar og viðskipta á Akureyri …
Ragnar Sverrisson kaupmaður með bókina Höndlað við Pollinn – saga verslunar og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000. Mynd: MÞÞ
  • Höndlað við Pollinn – saga verslunar og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000 komin út


 „Ég er virkilega ánægður með að hugmynd verða að veruleika. Það er ómetnalegt að eiga þessa sögu á bók, söguna alveg frá fyrstu tíð,“ segir Ragnar Sverrisson sem staðið hefur vaktina sem kaupmaður á Akureyri í 56 ár. Þar vísar hann til bókarinnar Höndlað við Pollinn – Saga verslunar og viðskipta á Akureyri frá öndverðu til 2000. Jón Þ. Þór sagnfræðingur er höfundur bókarinnar, en Hið íslenska bókmenntafélag gefur hana út.

Hugmyndin að bókinni kviknaði þegar frændur, Ingólfur Sverrisson og Jón Þ. Þór áttu saman tal og ræddu yfirlitsgrein sem Ragnar hafði tekið saman um verslunarsögu Akureyrar og birtist í Morgunblaðinu árið 2014. Bræðurnir fengu í lið með sér þau Sigurð Jóhannesson fyrrverandi aðalfulltrúa KEA og Úlfhildi Rögnvaldsdóttur sem þá var formaður Félags verslunar- og skrifstofufólks á Akureyri og í sameiningu hófust þau handa við að safna fé til að koma verkinu í gang.

Bæjarhlutar urðu til í kringum verslun

Í bókinni er farið yfir sögu verslunar og viðskipta á Akureyri síðastliðnar fjórar aldir og sem skiptist í nokkur afmörkuð tímabil.  Hvert og eitt hefur sín einkenni og öll settu þau svip sinn á kaupstaðinn, tilurð hans, vöxt og ásýnd.  Fram kemur í formála að náin tengsl hafi verið á milli verslunar á Akureyri og þróunar byggðar. Þrír elstu bæjarhlutarnir urðu til í  kringum verslun, fyrst Innbærinn síðan byggð á syðsta hluta Oddeyrar og loks miðbærinn. „Í öllum þessum bæjarhlutum var verslunarrekstur áberandi, reyndar aðalatvinnugreinin og náin tengsl voru milli verslunar og hafnarframkvæmda.“

Tímar breytast og ný hverfi verða til, verslanir voru gjarnar opnaðar í nýju hverfunum til að auðvelda íbúum að útvega sér nauðsynjar. Þær liðu svo flestar undir lok með tímanum og breyttum ferðavenju fólks. Dagvöruverslun fluttist að mestu í verslunarmiðstöðvar eða stórverslanir. Þá skipti,  líkt og höfundur segir, framboð bílastæða við verslanir viðlíka miklu máli og vöruúrvalið innandyra.

/MÞÞ

Nýjast