Öldungaráði Akureyrarbæjar Miður að máltíðir séu ekki í boði alla virka daga
Öldungaráði Akureyrarbæjar þykir miður að einungis sé gert ráð fyrir þremur niðurgreiddum máltíðum í viku í félagsmiðstöðvunum Birtu og Sölku.
Öldungaráðið og Félag eldri borgara á Akureyri hafa að sögn Hallgríms Gíslasonar varaformanns Öldungaráðs ítrekað óskað eftir að máltíðir séu í boði alla virka daga, „en það hefur ekki tekist að koma því í gegn,“ segir hann.
Bendir hann á að í flestum stærri sveitarfélögum landsins séu í boði fimm máltíðir í viku og að víða sé maturinn ódýrari en á Akureyri. „Það er nokkuð misjafnt hversu margir nýta sér þessa þjónustu, en að jafnaði eru það 40 til 50 manns í hverri máltíð,“ segir hann.
Enginn lýðheilsustyrkur
Öldungaráð og Félag eldri borgara hvöttu nýlega til þess að eldri borgarar á Akureyri njóti lýðheilsustyrks líkt og tíðkast í mörgum sveitarfélögum landsins. Styrkurinn er mishár á milli sveitarfélaga, en er oftast á bilinu 15 þúsund til 50 þúsund krónur á ári. Erindi um styrkinn var tekið fyrir á fundi Fræðslu- og lýðheilsuráðs bæjarins í nóvember síðastliðnum og þar var ákveðið að beina athyglinni að svo búnu að verkefninu Virk efri ár. Á þeim fundi var bókað að erindið yrði tekið upp að nýju fyrir fjárhagsáætlunarvinnu ársins 2025.