Öldungaráð skorar á Akureyrarbæ
Öldungaráð á Akureyri hefur skorað á fræðslu- og lýðheilsunefnd bæjarins að halda áfram að bjóða upp á máltíðir á niðurgreiddu verði til eldra fólks. Hvetur ráðið til þess að bjóða upp á máltíðir fimm daga vikunnar, eins og flest önnur sambærileg sveitarfélög gera. Rætt var um hádegismat fyrir eldra fólk í félagsmiðstöðunum Birtu og Sölku á fundi ráðsins nýverið.
Halla Birgisdóttir forstöðumaður tómstundamála sagði frá stöðu á hádegismatnum á fundinum. Öldungaráð lýsti sérstakri ánægju með hve vel hefur tekist til með hádegismatinn í Sölku og Birtu undanfarið. Ljóst er að félagslegi þáttur þess að koma saman og borða hefur mikil og góð áhrif á líðan og heilsufar eldra fólks.