Ófrávíkjanleg krafa um uppbyggingu flugvallarins
Ég horfði á endursýningu af bæjarstjórnarfundi frá þriðjudeginum 16. október s.l. á N4 daginn eftir. Þar var aðalmálefnið Akureyrarflugvöllur eftir
ágæta framsögu Hildu Jönu um samgönguáætlun fyrir árin 2019-2023 og 2019 2033.
Eins og stundum áður var umræðan langdregin og óþarfa málskrúð, m.a. til að mæra síðasta ræðumann og fólk þyrfti endilega að sína sig í pontu. Í lok fundar var síðan borin upp eftirfarandi ályktun og samþykkt með 11 samhljóða atkv.
„Bæjarstjórn Akureyrar lýsir yfir miklum vonbrigðum með að í þessari samgönguáætlun sé ekki gert ráð fyrir fjármögnun Akureyrarflugvallar. Það samræmist hvorki byggðaáætlun stjórnvalda né umræðu um mikilvægi þess að dreifa ferðamönnum um landið. Þá hvetur bæjarstjórn Akureyrar ríkisstjórnina til að ljúka við löngu tímabæra eigendastefnu Isavia, ekki seinna en um áramótin 2o18/2019“.
Orð eru til alls fyrst en vantar svo sárlega oft á tíðum að fylgja þeim eftir af þeirri hörku, sem til þarf þegar að ríkivaldið á í hlut og þýðir þá ekki að sýna neinn liðleskjuhátt. Framsóknarflokkurinn er t.d. með liðónýtan samgönguráðherra, sem enga fjárveitingu ætlar næstu 5 árin til Akureyrarflugvallar. Það hefði ekki verið úr vegi eins og raunar ég hef bent á áður að bæjarstjórnin sýndi lit með því að láta ýta úr hlössunum, sem fengust gefins úr Vaðalheiðargöngum í flughlaðið, svo ekki sé minnst á að koma á strætóferðum úr flugvelli inn í bæ, en margsinnis er búið að óska eftir því. Það þýðir nefnilega aldrei að sitja bara með hendurnar í klofinu á sér og gera ekki neitt því úræðin detta ekki af himnum ofan.
Gríðarleg nauðsyn uppbyggingar
Það er mikið í húfi því fréttir herma að Breska ferðaskrifsofan Super Break hafi hug á að tvöfalda flugumferð sína frá Bretlandi til Akureyrar í vetur og viðræður séu í gangi við hollenska ferðaskrifstofu um leiguflug þaðan. Það er talað um að hvorki meira né minna en 29 brottfarir frá 18 flugvöllum í Bretlandi frá desember n.k. til mars á næsta ári. Þarna er um að ræða þúsundir ferðamanna til Akureyrar og jafnvel talað um áætlunarflug í kjölfarið. Það væri ekki ónýt búbót í bænum.
Það hefur einnig komið til tals sérstaklega frá einum bæjarfulltrúa í bæjarstjórn að bærinn taki yfir rekstur flugvallarins en það lýst öllum ekki vel á og hefur Hilda Jana lýst þar andstöðu og það, sem kannski meira er að hinn vísi maður Ari Fossdal, sem hefur helgað Akureyrarflugvelli krafta sýna í nær 27 ár er algjörlega andvígur því. Og hver veit betur? Hann er einmitt maðurinn, sem best er fallinn til að segja til um hvernig uppbyggingu flugvallarins er best háttað til að koma honum í ásættanlegt ástand. Í þessu máli er svo gífurlega mikið í húfi og miklir hagsmunir í veði að enga bið þolir uppbygging Akureyrarflugvallar.
Mér dettur í hug það, sem ég hef áður komið inn á, að fyrir NA kjördæmi eru 10 Þingmenn, sem er 1/6 þingliðsins og þar af eru 5 frá Akureyri. Þarna eru m.a. ráðherrann Kristján Þór, formaður Samfylkingarinnar, Logi Már, frá Miðflokknum Anna Kolbrún, og flugumferðarstjórinn Njáll Trausti. Einnig vil ég minna á að formaður Miðflokksins og fyrrv. forsætisráðherra Sigmundur Davíð var til skamms tíma búsettur hér í bæ og trúi ég ekkki öðru en að hann yrði liðtækur í málinu.
Bæjarstjórnin þarf að taka á sig rögg og hóa þessu fólki öllu saman á fund eða fundi og jafnvel taka hina þingmennina úr NA kjördæmi með. Þetta verður að gerast strax. Þessir 10 þingmenn með ráðherrann innanborðs geta reddað málinu strax þar, sem svo gífurlega mikið er í húfi eins og fyrr segir. Það treysta allir Akureyringar á ykkur sam hvar í flokki þið standið. Þetta er nánast neyðarkall.
-Hjörleifur Hallgríms.