Öflugir VMA-nemar í stærðfræðinni

Víkingur Þorri Sigurðsson, þriðji frá vinstri, í keppnisliði Íslands í Eystrasaltskeppninni í stærðf…
Víkingur Þorri Sigurðsson, þriðji frá vinstri, í keppnisliði Íslands í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði sem fram fór í Flensborg í Þýskalandi. Síðastliðið sumar tók hann þátt í Ólympíuleikunum í stærðfræði í Japan Mynd vma.is

Árangur tveggja nemenda í VMA, Orra Sigurbjörns Þorkelssonar og Víkings Þorra Sigurðssonar, í forkeppni stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fór fram 3. október sl. tryggði þeim þátttökurétt í úrslitakeppninni sem fer fram síðla vetrar. Orri Sigurbjörn keppir á neðra stigi en Víkingur Þorri á efra stigi.

Víkingur Þorri keppti einnig í fyrra og var þá efstur í forkeppninni á neðra stigi. Árinu eldri keppir hann nú á efra stigi.

Síðasti vetur og allt þetta ár hefur verið viðburðaríkt hjá Víkingi Þorra í stærðfræðinni því sem fyrr segir tryggði hann sér fyrir ári sæti í úrslitum stærðfræðikeppni framhaldsskólanna sem fram fór í Reykjavík í mars sl. Systir hans, Theodóra Tinna, sem einnig stundar nám í VMA, var einnig í úrslitum.

Í úrslitunum varð Víkingur Þorri efstur á neðra stigi og í kjölfarið tók hann þátt í Norrænu stærðfræðikeppninni, sem var veflæg, 30. mars sl. Góður árangur þar tryggði Víkingi Þorra síðan keppnisrétt í sex manna liði Íslands í Ólympíuleikunum í stærðfræði í Chiba í Japan 2.-13. júlí sl. sumar sem að vonum var mikið ævintýri og ógleymanleg upplifun.

Núna í nóvember tók Víkingur Þorri þátt í Eystrasaltskeppninni í stærðfræði í þýsku borginni Flensborg, skammt sunnan landamæra Þýskalands og Danmerkur. Í liði Íslands, sem lenti í tíunda sæti í keppninni, voru auk Víkings Þorra Hrafnkell Hvanndal Halldórsson, Merkúr Máni Hermannsson, Ragna María Sverrirsdóttir og Valur Georgsson. Hrafnkell Hvanndal, Merkúr Máni og Valur eru nemendur Menntaskólans í Reykjavík en Ragna María er í Verslunarskólanum.

Frá þessu er sagt á heimasíðu VMA

 

Nýjast