Óeðlilegt að Kirkjan haldi á jarðhitaauðlind án þess að tengjast nýtingunni

Norðurorka hefur lýst yfir vilja sínum til að kaupa jarðhitaréttindi jarðarinnar Syðra Laugalands í Eyjafjarðarsveit. Kirkjan á jörðina og fékk Norðurorka svar nýverið um að hún ætlaði sér að eiga jarðhitaréttindin áfram en selja húsakost á jörðinni.

„Sýn okkar hjá Norðurorku er sú að félagið og þar með samfélagið við Eyjafjörð eignist þau jarðhitasvæði sem félagið nýtir og kann að nýta í framtíðinni,“ segir Helgi Jóhannesson forstjóri Norðurorku. Fyrirtækið vænti þess að Kirkjan myndi horfa til þeirra sjónarmiða varðandi eignarhald sitt á  jarðhitasvæði í Eyjafirði sem nýtt væri til almannahagsmuna í nærumhverfinu.

„Það er um margt óeðlilegt að Kirkjan halda á jarðhitaauðlind án þess að tengjast nýtingunni á neinn hátt í gegnum eignir sínar eða starfsemi.“

Helgi segir að Norðurorka hafi átt góð samskipti við Kirkjuna um jarðhitasvæðið á Syðra-Laugalandi í Eyjafirði um langa hríð og vonar að svo verði áfram. „Vonandi endurskoðar Kirkjan afstöðu sína á næstu árum,“ segir hann. 

/MÞÞ

Nýjast