20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Óánægja með einu stóru matvöruverslunina á Húsavík
Miklar umræður urðu um verslun og þjónustu á félagssvæðinu á aðalfundi Deildar verslunar- og skrifstofufólks Framsýnar. Óánægju gætir með einu stóru matvörubúðina á Húsavík sem Samkaup reka. Forsvarsmönnum Framsýnar var falið að koma óánægjunni á framfæri við stjórnendur Samkaupa og krefjast úrbóta hvað varðar vöruúrval og almennt aðgengi í búðinni.
Samkaup reka tvær verslanir á Húsavík, Krambúðina og Nettó. Spjótin beinast að þeirri síðarnefndu, en á fundinum var rætt um fátæklegt vöruúrval og einnig að þröngt væri á milli rekka og vart hægt að mæta fólki með körfur.
„Það var ákveðið að við myndum beita okkur í þessu mál og kalla eftir breytingum á versluninni. Það er mikilvægt að hafa góða matvöruverslun í bæjarfélagi eins og Húsavík. Það er að mörgu leyti ágætar verslanir hér í bænum, m.a. er skóbúðin þekkt og margir sem leggja leið sína þangað bæði heimamenn og gestir. Verslanir geta stutt hver við aðra og við teljum að með góðri matvöruverslun verði bærinn sterkari,“ segir Aðalsteinn Árni Baldursson formaður Framsýnar sem mun óska eftir viðbrögðum frá eigendum Samkaupa í kjölfar umræðu aðalfundarins. Hann tók fram að starfsfólkið í versluninni væri til fyrirmyndar og allt af vilja gert að gera það besta úr stöðunni.
Á fundinum kom fram að íbúar væru í meira mæli en áður farnir að leggja leið sín til Akureyrar til að versla inn þar og þá einkum og sér í lagi vegna þess hve vöruúrval í Nettó á Húsavík væri af skornum skammti.