20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Óæskilegt að greiða arð út úr félagi í uppbyggingarfasa sem fjármagnar sig með lántöku og hækkandi verðskrá
„Eyjafjarðarsveit hefur til fjölda ára bent stjórn Norðurorku á að sveitarfélagið telji óæskilegt að greiða arð út úr félaginu á meðan það er í viðamiklum uppbyggingarfasa sem þarf að fjármagna með lántöku og hækkandi verðskrám,“ segir í bókun sveitarstjórnar Eyjafjarðarsveitar í tilefni af fundargerð Norðurorku frá því fyrr í haust, en þar var m.a. erindi frá sveitarfélaginu um málefni er snúa að því. Fram kom á þeim fundi að hluti stjórnar fyrirtækisins vildi bjóðast til að kaupa hlut Eyjafjarðarsveitar í Norðurorku.
„Sveitarstjórn hefur talið að sú staða sem nú sé komin upp hjá félaginu sé að hluta til komin vegna þess að fjármunir séu ekki nýttir innan félagsins í þróun og uppbyggingu innviða heldur sé þeim beint út úr félaginu í formi arðgreiðslna. Í þessu samhengi hefur sveitarfélagið bent á mikilvægi þess að stjórn hafi hagsmuni félagsins í forgrunni í tillögum sínum til eigenda. Þetta er ekki einungis vegna þess að Eyjafjarðarsveit er örhluthafi í fyrirtækinu heldur ekki síst vegna þess að stór hluti íbúa þess eru viðskiptavinir fyrirtækisins og þar með háðir því að fjárfestingar í veitukerfum geti staðið undir rekstri þeirra og vexti. Einnig verður ekki fram hjá því horft að hluti af þeim auðlindastraumum sem Norðurorka nýtir eru innan Eyjafjarðarsveitar og eðlilegt að íbúar horfi til þess að þeir straumar nýtist til uppbyggingar þar ekki síður en annars staðar.“
Hafa skilning á takmarkaðri getu til að afhenda vatn
Jafnframt áréttar sveitarstjórn Eyjafjarðarsveitar að erindi til stjórnar Norðurorku á dögunum hafi ekki einungis snúist um þrjú verkefni í sveitarfélaginu heldur um samhengi þeirra við önnur verkefni hjá félaginu og takmarkaða getu til að afhenda heitt vatn í dag sem sveitarstjórn hefur skilning á. „Þá sneri erindið að auki um samhengi arðgreiðslna, lántöku og fjárfestingaþarfar félagsins. Upplifun sveitarfélagsins var á þeim tíma sú að mögulega væri verkefnum mismunað eftir staðsetningu þeirra og var því óskað eftir samtali við stjórn um stöðuna. Bendir sveitarfélagið á að mikilvægt sé að samfélögin öll sem standa að Norðurorku nálgist málið sameiginlega með hóflegum væntingum um verkefni þar til félagið hefur náð vopnum sínum aftur.“
Ekki hefur borist formlegt erindi frá stjórn Norðurorku um það hvort bjóða eigi sveitarfélaginu kaup á hlut þess í félaginu eða fyrirspurn um það hvort sveitarfélagið beri ekki traust til þess.
Sveitarstjórn leggur áherslu á að mikilvægt sé að skapa og viðhalda góðu trausti milli eigenda, viðskiptavina og stjórnar Norðurorku. Það mætti meðal annars gera með því að verða við óskum um samtöl við stjórn þegar eigendur telja málefnin brýn, að eigendur hafi hver fyrir sig áheyrnafulltrúa í stjórn í stað eins sameiginlegs, að eigendur taki allir þátt í gerð eigendastefnu þegar þar að kemur og að í stjórn sitji fagaðilar til blands við kjörna fulltrúa segir enn fremur.