Nýtt skip Samherja til hafnar

Oddeyrin EA 210, nýr togari Samherja hf., lagðist að Oddeyrartangabryggju nú í hádeginu, þar sem fjöldi fólks fagnaði komu hans. Togarinn var keyptur frá Noregi, hét áður Andenesfisk II og var smíðaður á Spáni árið 2000. Togarinn er 55 metra langur og rúmir 12 metrar á breidd. Þorsteinn Már Baldvinsson forstjóri Samherja sagði að Víðir EA yrði tekinn úr rekstri, líklega næsta haust. Hann sagði að með þessum kaupum væri verið endurnýja flota fyrirtækisins, bæta aðstöðu og aðbúnað og auka verðmætasköpun. Þorsteinn sagði að Oddeyrin færi á frystingu til að byrja með, að öllum líkindum eftir næstu helgi. Í áhöfn verða 17-20 manns en skipstjórar verða Hjörtur Valsson, sem var áður á Víði EA og Guðmundur Freyr Guðmundsson sem var áður á Akureyrinni EA.

Nýjast