Tjaldsvæðisreitur - Frestur til að skila ábendingum að renna út

Frestur til að koma með ábendingar  við skipulagið rennur út  þann 27 febrúar  n.k.
Frestur til að koma með ábendingar við skipulagið rennur út þann 27 febrúar n.k.

Frestur til að koma ábendingum á framfæri um drög á deiliskipulagi fyrir Tjaldsvæðisreitinn við Þórunnarstræti er til 27. febrúar 2025, þetta kemur fram á akureyri.is

Svæðinu verður breytt úr tjaldsvæði í fjölbreytta íbúðabyggð. Lögð er áhersla á að skapa nútímalegt og sjálfbært hverfi sem fellur vel að núverandi byggð og umhverfi. Helstu áhersluatriði í nýju skipulagi eru blönduð byggð, íbúðir fyrir 60 ára og eldri, þétt og lágreist byggð með bílakjallara, fjölbreytt rými og græn svæði sem stuðla að betri lífsgæðum íbúa.
 
Deiliskipulagið er unnið í samræmi við kröfur BREEAM kerfisins en það tryggir að skipulagið uppfylli ströng viðmið um umhverfisáhrif, sjálfbærni og samfélagslega velferð. Meðal þeirra þátta sem horft er til eru samráð, sjálfbær nýting auðlinda, vistvænar samgöngur og aðlögun að loftslagsbreytingum.
 
Skipulagsferlið hefur staðið yfir í nokkur ár og er unnið í nánu samstarfi við íbúa, hagsmunaaðila og sérfræðinga. Á kynningarfundum og í gegnum samráðsvettvanginn „Okkar Akureyri“ hafa borist fjölmargar ábendingar og tillögur sem hafa mótað lokatillöguna.
 
Kynning á drögum að deiliskipulaginu fór fram á opnum fundi í Íþróttahöllinni í nóvember 2023 þar sem íbúar gátu kynnt sér tillögurnar í smáatriðum og lagt fram athugasemdir. Framundan er áframhaldandi vinna við hönnun og framkvæmd, en skipulagið verður grundvöllur að framtíðaruppbyggingu á svæðinu.
 
Þau sem vilja senda inn ábendingar geta sagt sína skoðun í gegnum Skipulagsgátt (skipulagsgatt.is mál nr. 68/2025) til 27. febrúar 2025.
 
Greinargerð um skipulagið má lesa hér. Deiliskipulagsuppdrátt sem sýnir breytinguna má nálgast hér og skuggavarpið má sjá hér.

Nýjast