Nýtt gagnaver atNorth var vígt að Hlíðarvöllum á Akureyri

Bygging gagnaversins gekk vonum framar, en aðeins eru um 11 mánuðir frá því framkvæmdir hófust. Tvö …
Bygging gagnaversins gekk vonum framar, en aðeins eru um 11 mánuðir frá því framkvæmdir hófust. Tvö hús eru í fyrsta áfanga, en í allt verða þau fimm og kostnaður vel á þriðja milljarð króna. Myndir MÞÞ

Nýtt gagnaver atNorth var vígt að Hlíðarvöllum á Akureyri í gær, að viðstöddu lykilfólki sem kom að undirbúningi,  framkvæmdum og fjármögnun verkefnisins. Bygging gagnaversins gekk vonum framar, en aðeins eru um 11 mánuðir frá því framkvæmdir hófust.

 Fyrsti áfangi gagnaversins að Hlíðarvöllum er um 2.500 fermetrar í tveimur samtengdum byggingum og nemur kostnaður við framkvæmdina vel á þriðja milljarð króna. Fullbyggt verður gagnaverið í fimm byggingum, auk þess sem þrjár nýjar skrifstofu- og þjónustubyggingar verða á athafnasvæði atNorth

 Við vígsluna færði Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, verktökum sínar bestu þakkir fyrir frábært samstarf, en stærsti hluti verksins var unnin af heimamönnum. „Þetta er stór dagur fyrir okkur og nærsamfélagið á Akureyri. Gagnaverið er það fullkomnasta sinnar tegundar og fjarlægð frá öðrum starfsstöðvum atNorth gefur viðskiptavinum færi á að tryggja landfræðilegan aðskilnað milli sinna tölvukerfa. Þannig tekst að lágmarka hættuna af mögulegum truflunum, t.d. vegna náttúruvár. Það styrkir okkar samkeppnisstöðu,“ segir Eyjólfur Magnús.

 Hann segir Akureyri mjög heppilegan stað fyrir rekstur gagnavers, enda sé mikilvægt að velja gagnaveri stað þar sem samgöngur eru greiðar og menntað fólk til staðar til að sinna uppbyggingu, rekstri og þjónustu við gagnaverið og viðskiptavini þess. Sú sé raunin á Akureyri, þar sem nálægð við öflugt háskólasamfélag skapi líka ótal tækifæri. „Við hlökkum til að halda áfram uppbyggingu á Akureyri og munum þegar hefjast handa við næsta áfanga í uppbyggingunni hér á svæðinu. Við erum jafnframt reiðubúin til samstarfs og nýsköpunar af ýmsu tagi, t.d. varðandi framleiðslu á heitu vatn með nýtingu umframvarma frá gagnaverinu, en það höfum við gert með góðum árangri í Svíþjóð,“ segir Eyjólfur Magnús.

 Uppbygging gagnavera í Evrópu hefur á undanförnum árum færst sífellt norðar í álfuna, þar sem hitastig er lægra, orkan endurnýjanleg, tæknilegir inniviðir eru sterkir og hæft fólk fæst til starfa.

 Gagnaver gegna mikilvægu samfélagshlutverki í stafrænum heimi, þar sem einstaklingar og fyrirtæki reiða sig á margvíslega gagna- og reikniþjónustu. Þannig geyma margir ljósmyndir og önnur persónuleg gögn í gagnaverum, eða nýta skýjaþjónustu sem byggir á gagnavistun eða -úrvinnslu í gagnaverum. Gagnaver atNorth mun þjónusta innlenda og erlenda viðskiptavini; bæði með gagnavistun og ofurtölvuþjónustu til ýmis konar útreikninga á sviði verkfræði, fjármála og rannsókna. Meðal viðskiptavina atNorth eru orku- og bifreiðaframleiðendur, streymisveitur, máltækni- og gervigreindarfyrirtæki svo fátt eitt sé nefnt.

Um atNorth:

atNorth hefur frá 2009 verið brautryðjandi í í hönnun, byggingu og rekstri hátæknigagnavera á Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi. Meðal viðskiptavina atNorth eru alþjóðleg fyrirtæki og stofnanir sem starfa í fjölmörgum greinum, svo sem við rannsóknir, í heilbrigðisgeiranum, í genarannsóknum, við framleiðslu, í fjármálaiðnaði og veðurfræði sem nýta þjónustur atNorth til þess að vinna gögn með hámarks afköstum á hagkvæman og umhverfisvænan hátt. Með staðsetningu gagnavera atNorth á Norðurlöndunum hefur fyrirtækið nýtt á snjallan hátt umhverfisaðstæður svo sem loftslag og nýtingu hita sem myndast í gagnaverunum til að ná fram betri orkunýtingu en þekkist annarstaðar við rekstur gagnavera ásamt því að knýja gagnaverin með endurnýjanlegri orku. atNorth hannar gagnaver sín með hringrásarhagkerfið að leiðarljósi sem byggir á grunni endurnýjanlegrar orku og hagkvæmri orkunýtingu segir í tilkynningu.

 

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth

Nýtt gagnaver atNorth var vígt að Hlíðarvöllum á Akureyri, að viðstöddu lykilfólki sem kom að undirbúningi,  framkvæmdum og fjármögnun verkefnisins.

Nýjast