20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Nýtt deiliskipulag fyrir Hrafnagilshverfi tekur gildi Gert ráð fyrir nær 100 nýjum íbúðum
Nýtt deiliskipulag fyrir Hrafnagilshverfi í Eyjafjarðarsveit hefur tekið gildi. Skipulagið hefur verið í undirbúningi og vinnslu í langan tíma og hófst vinna við það formlega hjá skipulagsnefnd Eyjafjarðarsveitar í nóvember 2019, fyrir þremur árum.
Með skipulagsvinnunni var leitast eftir að marka heildstæða stefnu fyrir uppbyggingu og þróun Hrafnagilshverfis til lengri tíma litið. Var horft til þess að nýta þá möguleika sem tilfærsla Eyjafjarðarbrautar vestri út úr hverfinu hefði í för með sér ásamt því að vernda eiginleika og ásýnd lágreists og gróins hverfisins eins og það nú er.
Íbúðir fyrir aldraða
Ný íbúðarsvæði eru í landi Grísarár meðfram Eyjafjarðarbraut og í brekkunni ofan núverandi byggðar auk þess sem athafnasvæði er skilgreint á lóð Gömlu Garðyrkjustöðvarinnar á Grísará. Íbúðasvæði er að auki skilgreint á óbyggðu svæði milli Laugaborgar og Reykár. Alls eru íbúðarlóðir skilgreindar í skipulaginu fyrir 88 til 93 nýjar íbúðir. Þær skiptast niður í 41 einbýlishús, 27 til 31 íbúðir í raðhúsum og 20 íbúðir í fjölbýlishúsum. Þar af eru 12 íbúðir fyrir aldraða í viðbyggingu við fyrrum heimavist Hrafnagilsskóla.