Nytjamarkaðurinn Norðurhjálp opnar á ný og nú við Dalsbraut

Norðurhjálp opnar aftur i dag
Norðurhjálp opnar aftur i dag

„Það verður óskaplega gaman að opna aftur og við hlökkum mikið til að hefjast starfsemina á ný,“ segir Sæunn Ísfeld Guðmundsdóttir ein þeirra sem standa að nytjamarkaðnum Norðurhjálp sem opnar á nýjum stað kl. 13 í dag, föstudaginn 21. júní. Nýr staður undir starfsemina fannst við Dalsbraut, á efri hæð með inngangi sunnan megin. Markaðurinn hóf starfsemi í lok október í fyrra í húsnæði við Hvannavelli sem þurfti að rýma um mánaðamótin mars og apríl.

„Mér fannst alveg frábært að við fengum þennan stað,“ segir Sæunn, en áður fyrr var þar til hús ullmat á vegum Sambandsverksmiðjanna og þar var faðir hennar Guðmundur Stefánsson verkstjóri. „Ég kom hingað stundum með honum í gamla daga og þótti það mjög skemmtilegt. Það er góður andi í húsinu og við bíðum spenntar eftir að hleypa okkar góðu viðskiptavinum inn.“

Miklar endurbætur á húsnæðinu

Húsnæðið er rúmgott, um 400 fermetrar, talsvert stærra en það sem áður var notað undir starfsemina. Þær stöllur, Sæunn, Anna Jóna Viggósdóttir, Stefanía Fjóla Elísdóttir og Guðbjörg Thorsen staðið í ströngu við endurbætur á húsnæði síðustu vikur. „Við fengum húsnæðið hrátt og það þurfti heldur betur að taka til hendinni, hér er allt nýmálað og flott og við komnar með nýjar innréttingar enda er markaðurinn mun stærri en var,“ segir Sæunn. Hún segir velvild fyrirtækja í bænum hafa komið þeim einstaklega vel, Byko, Slippfélagið, Höldur, Greifinn og Halldór úrsmiður hafi þar farið fremst í flokki og gefið m.a. málningu, mat, innréttingar og lánað bíla. „Við erum innilega þakklátar fyrir allt sem við höfum fengið, án aðstoðar frá nær samfélaginu hefði þetta aldrei tekist.“

Tekið var frá pláss fyrir skrifstofu þar sem hægt er að ræða við skjólstæðinga, sett upp salerni og þá er góð aðstaða til að taka á móti varningi og flokka hann. Barnahorn var sett upp þar sem börn geta litað og leikið sér á meðan fullorðna fólkið skoðar sig um. Þá er gott rými undir bækur sem marga fýsir að grúska í og eins er sófi til að hvíla sig í og jafnvel fá sé kaffibolla, líta i blöð og spjalla um daginn og veginn við aðra viðskiptavini.

Sófi til að hvíla sig í og jafnvel fá sé kaffibolla, líta i blöð og spjalla um daginn og veginn við aðra viðskiptavini.

Lægstu launin duga ekki í dýrtíðinni

Öll innkoma af markaðnum, utan við leigu er nýtt til að aðstoða þá sem standa höllum fæti í samfélaginu. Allt starfsfólk er sjálfboðaliðar og án launa. Sæunn segir að alltaf sé hægt að bæta við sjálfboðaliðum og þeir sem hafa áhuga geti haft samband. Á þeim fimm mánuðum sem markaðurinn var starfandi náðu þær stöllur að greiða út á bilinu 5 til 6 milljónir króna í formi inneignarkorta í Bónus. „Við finnum vel fyrir því að staðan í samfélaginu er ekki góð, það eru margir sem ná ekki endum saman og þurfa aðstoð við að lifa af mánuðinn. Það sem vakti athygli mína var hversu margir sem eru í vinnu en á lágum launum leita til okkur. Fyrir fram hélt ég að flestir yrðu úr hópi öryrkja og einstæða foreldra, en staðan virðist þannig í þeirri dýrtíð sem við búum við, hátt vaxtastig með hækkandi lánum og leigu, að lægstu launin virðast ekki duga, því miður,“ segir Sæunn. „Eftir því sem ástandið versnar verður ásókn í aðstoð meiri, það verða alltaf fleiri og fleiri sem lenda í því að ná ekki endum saman í þeirri dýrtíð sem ríkir.“

Stöllurnar leggja á sig mikla vinnu til að rétta öðrum hjálparhönd. „Það gefur okkur mikið að geta létt öðrum lífið, að finna að það sem við gerum skiptir máli. Það má segja að okkar laun er hlýjan sem sigur eftir í hjartanu eftir annasaman vinnudag,“ segir Sæunn. „Við viljum láta gott af okkur leiða og þetta er okkar leið til þess.“

Leiðin til þeirra Norðurhjálparkvenna er greið.

Nýjast