20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Nýjar kirkjuklukkur komnar út í Grímsey þar sem ró og friður ríkir um hátíðar
Jólin hafa verið ljúf við heimskautsbaug. Veðrið hefur verið gott að mestu og miklu betra en spár hafa sagt fyrir um og allar samgöngur gengið vel.
Alls eru um 40 manns út í eyju yfir hátíðarnar og eitthvað um ferðamenn bæði með ferjunni og flugi í nánast hverri ferð. Grímseyingar gera sér eitt og annað til skemmtundar, spilað var bingó í félagsheimilinu Múla, þar var einnig haldin jólatrésskemmtun og jólamessa verður haldin þar í dag kl. 13.
Vonir standa til að næsta jólamessa geti orðið í nýju kirkjunni og þá verði einnig hægt að hringja jólin inn, en kirkjuklukkurnar tvær sem voru í Miðgarðakirkju voru úr bronsi og bráðnuðu í eldinum þannig að ekkert varð eftir heillegt nema kólfarnir sem voru úr járni.
Nýjar kirkjuklukkur bárust Grímseyingum stuttu fyrir jól, en Sóknarnefnd Hallgrímskirkju hafði forgöngu um að safna fyrir kirkjuklukkunum og bíða þær nú uppsetningar í félagsheimilinu Múla. Þetta kemur fram á vefsíðu Akureyrarbæjar.
Grímseyingar spiluðu bingó í félagsheimilinu Múla.