Nýir þættir hefja göngu sína á N4
Tveir nýir sjónvarpsþættir eru að hefja göngu sína á N4. Annars vegar er það þátturinn Ljóðamál á almannafæri sem hefst þann 15. júní en þar er ljóðskáldum og kvikmyndagerðarmönnum stefnt saman á ljóðahátíð á skjánum.
Skáldin sem stíga á stokk í þáttunum koma víða að en þó er norðlensk skáld áberandi. Meðal annars koma Akureyrarskáldin Arnar Már Arngrímsson, Eyþór Gylfason, Sesselía Ólafs, Vilhjálmur B. Bragason og Ásgeir H Ingólfsson fram í þáttunum. Að sunnan koma Bergþóra Snæbjörnsdóttir, María Ramos, Loki, Soffía Bjarnadóttir, Þórdís Helgadóttir og Ásta Fanney Sigurðardóttir. Þá koma nokkrirr gestir að utan við sögu. Kvikmyndagerðarmennirnir sem færa ljóðskáldin heim í stofu eru þau Kári Liljendal, Magnea Björk Valdimarsdóttir, Atli Sigurjónsson, Haukur Valdimar Pálsson, Hallur Örn Árnason og Darrell Jónsson, en sá síðarnefndi sér líka um upptöku í stúdíói í MeetFactory, þar sem Arnheiður Eiríksdóttir og Ásgeir H Ingólfsson kynna dagskrána. Umsjónarmaður þáttanna er Ásgeir H Ingólfsson.
Tónlistarskólar landsins láta ljós sitt skína
Hins vegar er það sjónvarpsþátturinn Netnótan þar sem tónlistarskólar landsins verða í aðalhlutverki. Á Íslandi eru tæplega 90 tónlistarskólar starfandi með 15 þúsund nemendur. Flest allir þessir skólar taka þátt í Netnótunni, nýjum tónlistarþáttum, sem unnir eru í samstarfi við Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum og Samtaka tónlistarskólastjóra. Í þáttunum gefst kostur á að skyggnast inn í starfsemi tónlistarskólanna, grasrót tónlistarsköpunar í landinu.
Frá árinu 2010 hefur Nótan, uppskeruhátíð tónlistarskóla landsins, verið haldin árlega með pompi og prakt. Árið 2020 átti hátíðin 10 ára afmæli en lítið varð úr hátíðarhöldum vegna Covid. Í Ljósi aðstæðna brugðust tónlistarskólar landsins við með síma og Ipada að vopni og tóku upp eigin tónlistaratriði. Saman eru þessi myndbönd orðin að Netnótunni, þriggja þátta sjónvarpsseríu sem sýnd verður á N4. Fyrsti þáttur fer í loftið þann 13. júní og sér leikarinn Vilhjálmur Bragason um að kynna atriðin, segir í tilkynningu frá N4.