Ný slökkvibifreið til Norðurþings

Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri tekur við lyklunum af Katrínu Sigurjónsdóttur sveitarstjóra Norður…
Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri tekur við lyklunum af Katrínu Sigurjónsdóttur sveitarstjóra Norðurþings. Mynd/Aðsend.

Norðurþing fékk á dögunum afhentan nýjan slökkvibíl frá fyrirtækinu Ólafur Gíslason & Co. hf. Það var Dagný Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri sem afhenti Katrínu Sigurjónsdóttur sveitarstjóra bílinn og við sama tækifæri veitti Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri Norðurþings, lyklunum að bílnum viðtöku f.h. slökkviliðs Norðurþings.

 Bifreiðin var keypt fullbúin frá Póllandi eftir sameiginlegt útboð sveitarfélaga á slökkvibílum árið 2022. Hún er af gerðinni Scania 500hp með 4.000 ltr dælu og One-Seven 5500 kerfi sem sjöfaldar slökkvimátt þess vatns sem notað er um leið og mengun við slökkvistörf minnkar. Á bílnum eru tveir öflugir fjarstýrðir mónitorar, annar á þaki og hinn á framstuðara. Margvíslegur annar búnaður er í bílnum og munu slökkviliðsmenn Norðurþings fá þjálfun og kennslu á bifreiðina frá framleiðanda. Í kjölfarið verður hún tekin í fulla notkun.

Slökkviliðið festi einnig kaup á körfubíl í lok febrúar af gerðinni Mercedes Benz Aktros. Bíllinn er ætlaður til lífbjörgunar og slökkviliðsstarfa af hærri byggingum en tólf stór fjölbýlishús auk hærri bygginga fyrirtækja og opinberra stofnana eru á Húsavík.

 Laugardaginn 6. júlí verður opinn dagur hjá slökkviliðinu frá kl. 13.00 – 16.00. Þar mun slökkviliðið sýna bíla, búnað og aðstöðu liðsins á Norðurgarði. Íbúar Norðurþings og aðrir gestir eru hvattir til að mæta.

Slökkvibíl nýr

Nýjast