Ný plata frá hljómsveitinni 7 9 13
Hljómsveitin 7 9 13 var að gefa út plötu um nýliðin mánaðarmót. Þau eru alls 6 í bandinu og hafa öll utan eitt stundað nám í Tónlistarskólanum á Akureyri.
Þau eru öll ung að árum og eiga það einnig sameiginlegt að hafa stundað nám i Verkmenntaskólanum á Akureyri. Upphafið má rekja til þess að krökkunum var hóað saman til að spila undir á söngvakeppni VMA, Sturtuhausnum árið 2019. Særún Elma söngkona tók þátt og vann keppnina. Hugur krakkanna stefndi eftir það hærra og var ákveðið að taka þátt í Músíktilraunum árið 2020 en þá vildi ekki betur til en svo að keppnin var felld niður það ár vegna Kórónuveirufaraldurs. Þau biðu því í ár og tóku þátt árið 2021.
Sömdu helling af lögum
„Við sömdum helling af lögum á þessum tíma og eru öll lögin mjög mismunandi þar sem við vorum að þróa okkar sánd og ákveða í hvaða átt við vildum stefna með okkar tónlist,“ segir Jóel, Óskarsson, einn meðlima sveitarinnar.
Platan kom út 31 maí „og er samsafn af þeim lögum sem okkur fannst vænst um, afar ólík en ákveðið sánd í gegnum hana alla,“ bætir hann við Platan er aðgengileg á öllu helstu streymisveitum.