Ný kornþurrkstöð risin á Húsavík

Nýja kornstöðin Mynd epe
Nýja kornstöðin Mynd epe

Búnaðarsamband Suður-Þingeyinga (BSÞ) ásamt Fjárfestingafélagi Þingeyinga kynnti áform um þurrkstöð við Húsavík á fjárfestingahátíð Norðanáttar sem fram fór á Siglufirði á síðasta ári. Þurrkstöðin við Húsavík mun auk þess að framleiða grasköggla, þurrka korn og eins er ætlunin að þurrka grisjunarvið og framleiða m.a. undirburð. Nýttur verður glatvarmi frá Hveravöllum í þurrkstöðina 

 Þurrka bygg til að byrja með

 „Fyrsti fasinn er í raun kornþurrkstöð. Við erum að byrja á korninu og ætlum að byggja rekstargrundvöll undir það. Síðan er á fimm ára plani að fara í graskögglana,“ segir Haukur Marteinsson, formaður Búnaðarsambands S-Þingeyinga. Sílóin eru komin upp við Víðimóa á Húsavík og gert er ráð fyrir að þurrkarinn verði komin í gagnið á laugardag. „Það er stefnan að byrja að þreskja um helgina, bygg af starfsvæði BSÞ. Við notum þetta til að minnka innflutning á fóðri fyrir dýrin okkar, minnka kolefnisspor og auka tekjur fyrir bændur,“ segir Haukur. Um er að ræða þurrkstöð sem getur afkastað 1000 tonnum af korni á hausti en Haukur gerir ráð fyrir að það verði eitthvað minna þetta fyrsta haust. „Við þurrkuðum t.d. í fyrra um 250 tonn.“

Stefnt á að stórauka framleiðsluna

 „Þetta er útistandandi þurrkstöð af einföldustu gerð. Þessi fyrsti fasi það er bara þurrkari sem stendur á bak við sílóin og þau geta verið vetrargeymsla fyrir þá bændur sem það vilja og í öðru lagi eru þau sem buffer þannig að þurrkarinn stoppi aldrei heldur losar sig við þurrt korn í sílóin og getur tekið næsta skammt sjálfvirkt í sig,“ útskýrir Haukur og bætir við að það verði þurrkað allan sólarhringinn þar til allt korn er búið. Hann segir að í þessum fyrsta fasa verði eitt stöðugildi umsjónarmanns en að öðru leiti muni bændur koma að vinnunni sjálfir. „Þetta byggist mikið á samvinnu bænda að koma þessu verkefni farsællega af stað,“ segir Haukur.

Fyrsti fasi fullfjármagnaður

Haukur segir að vel hafi tekist að fjármagna verkefnið á þessum fyrstu stigum. „Við erum með fjárfesta, bæði einstaklinga og svo sveitarfélögin á svæðinu, svo fengum við 25 milljóna fjárfestingu frá KEA. Þannig að þessi fyrsti fasi er full fjármagnaður,“ segir Haukur og bætir við að nú sé bara að auka ræktun á svæðinu. „Nú er bara að auka ræktun og rækta meira land til að auka magnið og byggja undir rekstrargrundvöllinn. Svo er þetta fimm ára plan að fara í næsta fasa sem er að fjárfesta í annarskonar þurrkara, svo kölluðum færibandaþurrkara til að þurrka gras. Það verður yfirbyggt og meiri stöð. Þá erum við að tala líka um að þurrka korn í þessari stöð sem er komin núna og einnig gras í húsinu. Þá erum við líka komnir með fullkomnari fóðurstöð til að blanda og selja fullkomnara fóður en ekki bara eitt hráefni í fóðrið sem byggið er,“ segir Haukur að lokum.

Grein þessi birtist í Vikublaðinu þann 19 sept. s.l.  en vegna mistaka  dróst að pósta henni á vef blaðsins.

Nýjast