Ný fæðubótarverslun opnuð á Akureyri
Ný verslun sem sérhæfir sig í fæðubótarefnum var opnuð á Akureyri á laugardaginn var. Verslunin er á vegum einkaþjálfaranna og alþjóðadómaranna Jóhanns V. Norðfjörð og Sigurðar Gestssonar sem eiga og reka Fitness Akademíuna. Verslunin býður upp á FAST Nutrition fæðubótarefni frá Finnlandi, orkydrykki og ýmislegt fleira tengt heilsurækt. Verslunin er eina sinnar tegundar á Akureyri.
„Við höfum rekið Fitnessvefinn í um þrjú ár með góðum árangri og okkur fannst tími til kominn að opna verslun þar sem fólk getur leitað til okkar, fengið persónulega þjónustu og heilræði frá fólki sem lifir og hrærist í þessu alla daga um hvað það eigi að kaupa,“ segir Jóhann V. Norðfjörð. Hann bendir á að alltof oft sé fólk að taka inn fæðubótarefni án þess að vita almennilega hvað það er.
„Stundum eru einhver tískuefni í gangi en oft eru þessi efni ekkert að hjálpa fólki. Þá er verið að kasta peningum fyrir lítið. Einnig eru mörg fæðubótarefni í dag kynnt á þann hátt að það stenst ekki raunveruleikann. Þar af leiðandi er mikilvægt að hafa svona verslun þar sem fólk getur leitað til aðila sem vita upp hár hvað virkar og hvað ekki,“ segir Jóhann.
Próteinpönnukökur vinsælar
Vinsælustu vörurnar á hjá Fitnessvefnum og seldar eru í versluninni eru próteinpönnukökur og Celsius-orkudrykkurinn. Jóhann segir fæðubótarefnin ekki eingöngu vera fyrir fólk í vaxtarrækt og fitness.
„Margt af vörunum sem við bjóðum upp á henta öllum sem vilja tileinka sér heilbrigðari lífstíl, hvort sem það er að æfa stíft eða ekki. Próteinpönnukökurnar sem hafa slegið í gegn henta t.d. vel sem hollt millimál fyrir alla,“ segir Jóhann.
Verslunin er við Óseyri 6 og er opin alla virka daga frá kl. 17-19 og á laugardögum frá kl. 13-16.