Ný bók - Brýrnar yfir Eyjafjarðará
Á næstu dögum kemur út bókin Brýrnar yfir Eyjafjarðará eftir Arnór Blika Hallmundsson. Efnistök bókarinnar hljóta að teljast nokkuð nýstárleg en hér er Eyjafjarðará fylgt eftir í máli og myndum á tæplega 50 blaðsíðum. Eins og nafnið gefur til kynna er umfjöllunarefnið brýr sem spanna fljótið Eyjafjarðará og er stiklað á milli þeirra ellefu brúa, sem nú liggja yfir ána. Lesandanum er fylgt meðfram Eyjafjarðará frá upptökum til ósa þar sem hverri brú er eignaður einn stuttur kafli. Hver brú fær 2-3 blaðsíður þar sem birtast myndir af brúnum ásamt stuttu söguágripi um þær í bland við fróðleikskorn um nánasta umhverfi þeirra.
Þannig er um að ræða nokkurs konar örbyggðalýsingu á svæðinu sem hverfist um Eyjafjarðará og brýrnar yfir hana. Hvorki er rakin ítarlega saga brúasmíða í héraðinu né eru nákvæmar tæknilegar lýsingar á mannvirkjum heldur fyrst og fremst svipmyndir af brúnum og nágrenni þeirra. Einna ítarlegustu umfjöllun í bókinni fá þó „gömlu brýrnar“ þrjár á Þverbrautinni en þær eiga aldarafmæli á þessu ári. Um þessar mundir eru nefnilega liðin 100 ár frá því að Eyjafjarðará var brúuð með brúnum þremur yfir hólmana. Þá eiga tvær brýr yfir ána í fyrrum Saurbæjarhreppi níræðisafmæli í ár, svo það er ærið tilefni til þessarar útgáfu nú. (Kannski er hægt að líta á þessa bók sem nokkurs konar afmælisrit öldunganna þriggja á óshólmunum).
Þá er rétt að geta þess að auk brúnna yfir Eyjafjarðará fá tvær brýr til viðbótar í Eyjafirði nokkurs konar heiðursess í lok bókar en þær liggja yfir Þverárnar tvær austanmegin í firðinum.
Höfundur bókarinnar er Arnór Bliki Hallmundsson, framhaldsskólakennari við Verkmenntaskólann á Akureyri. Hann hefur um árabil, sér til ánægju og yndisauka, haldið úti vefsíðu þar sem hann birtir söguágrip eldri húsa á Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu (sl. hálft annað ár einnig á akureyri.net). Fyrr í sumar kom út bókin: Oddeyri Saga, hús og fólk, sem var samstarfsverkefni Kristínar Aðalsteinsdóttur og Arnórs Blika. Hér heldur Arnór sig við mannvirkin en fer í eilítið aðra átt; frá húsum í brýr. Líklega hefur fáum, ef nokkrum vatnsföllum landsins, verið gerð skil á þann hátt sem Arnór gerir í Brúnum yfir Eyjafjarðará.