Norðurþing vill sameiningarviðræður við Tjörneshrepp

Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps telur sameiningu ekki vera tímabæra. Mynd/ Framsýn
Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps telur sameiningu ekki vera tímabæra. Mynd/ Framsýn

Benóný Valur Jakobsson fulltrúi S-lista lagði til á sveitarstjórnarfundi Norðurþings í síðustu viku að Norðurþing bjóði Tjörneshreppi til formlegra viðræðna um sameiningu sveitarfélaganna.
Markmiðið með viðræðunum verði að hægt verði að kjósa um væntanlega sameiningu samhliða sveitarstjórnarkosningum í vor.

Bergur Elías Ágústssonfulltrúi B-lista lagði fram breytingatillögu: „Norðurþing bjóði Tjörneshreppi til sameiningarviðræðna.“ Var tillaga Bergs samþykkt samhljóða.

Aðalsteinn J. Halldórsson, oddviti Tjörneshrepps virtist ekki spenntur fyrir tillögunni þegar Vikublaðið náði af honum tali en sagðist þó opinn fyrir samtalinu.

„Ég var búinn að fá áður óformlegar umleitanir fyrir stuttu síðan en tel að það sé alltof stuttur tími fram að kosningum til að fara standa í þessu núna og ég veit að það er bara enginn vilji til þess í hreppnum að fara hespa þessu af á einhverjum örfáum vikum,“ segir Aðalsteinn og bætir við að hann telji ekki liggja það mikið á því að sameina sveitarfélögin.  

„Það kemur ný sveitarstjórn eftir næstu kosningar, bæði hjá Norðurþingi og eins hér í Tjörneshreppi, það er bara eðlilegt að bíða með þetta þangað til. Það er þá hægt að kanna stöðuna þá hvort afstaða Tjörnesinga hafi eitthvað breyst frá því sem nú er,“ segir hann að lokum.

Nýjast