Norðurþing: Forseti bæjarstjórnar hættir og flytur til Akureyrar
Friðrik Sigurðsson, forseti bæjarstjórnar Norðurþings og oddviti Sjálfstæðisflokksins sem skipar meirihlutann í bæjarstjórn ásamt Vinstri grænum, hefur tilkynnt félögum sínum þar að hann muni hætta störfum sem bæjarfulltrúi á næstunni af persónulegum ástæðum.
Aðspurður sagði Friðrik að þarna réðu hagsmunir fjölskyldunnar öllu og enginn ágreiningur hefði komið upp í meirihlutanum eða bæjarstjórn sem hefði þarna áhrif nema síður væri.“Við tókum einfaldlega þá ákvörðun fjölskyldan um áramótin af sérstökum ástæðum að flytjast búferlum til Akureyrar sem við gerum svo væntanlega á vordögum. Þar verður okkar lögheimili og ef ég ætlaði því að sitja áfram í bæjarstjórn Norðurþings, þá þyrfti ég að skilja við konuna, þannig að þetta var ekki erfið ákvörðun! Og þó mér finnist gaman í stjórnmálastarfi þá vildi ég ekki fórna frúnni fyrir pólitíkina.“
Friðrik segist hinsvegar áfram starfa við Bókaverslun Þórarins Stefánssonar sem hann á og rekur og einnig sem stjórnarformaður fyrirtækisins Steinsteypis þar sem umsvif fara mjög vaxandi. „Ég mun einfaldlega keyra frá Akureyri í vinnuna á Húsavík og það verður ekkert vandamál að sinna áfram mínum störfum hér.“
Aðspurður sagði Friðrik að Norðursigling hefði verið að bera víurnar í húsnæði Bókaverslunarinnar og einnig hefði Lyfja haft samband, en engin formleg tilboð borist. „En ef ásættanlegt tilboð kemur þá gæti ég auðvitað hugsanlega flutt mig um set með búðina hér í bænum.“
Upp er komin nokkuð snúin staða hjá D-lista í sveitarstjórn Norðurþings. Þar sitja þrír fulltrúar listans og annar maður hans, Örlygur Hnefill Örlygsson hefur verið í leyfi frá störfum, fjórði maður listans, Erna Björnsdóttir hefur leyst hann af og kemur inn sem fastafulltrúi þegar Friðrik hættir. Það verður hinsvegar spurning um varamann Ernu þar sem 5. maður listans, Áki Hauksson býr og starfar í Noregi og 6. sætið skipaði Þóra Kristín Sigurðardóttir sem er við nám í Reykjavík. JS