Leikdómur - Söngleikurinn Ólafía

Leikararar og aðstandendur í lok sýningar
Leikararar og aðstandendur í lok sýningar

Leikverk sýnt í félagsheimilinu Breiðumýri

Höfundur: Hörður Þór Benónýsson

Leikstjórn: Hildur Kristín Thorstensen

Tónlistarstjórn: Marika Alavere.

Enn á ný er litla félagsheimilið á Breiðumýri vettvangur leiklistar og þótt húsið með sitt flata gólf henti ekkert sérstaklega vel til leiksýninga, fyrir leikhúsgestinn, vekur það furðu hversu vel húsið umfaðmar gestinn. Þar munar mestu sú stórgóða hugmynd að skapa kaffihúsastemningu með litlum hringborðum hvar gestum býðst að panta sér kaffi eða aðra drykki, vöfflur með sultu og rjóma og/eða annað góðgæti að bragða á fyrir sýningu eða í hléi. Undirritaður getur staðfest að rjómavafflan bragðaðist vel og kaffið heitt eins og kaffi á að vera. Var þessi þáttur leiksýningar þar með gulltryggður!

Sem fyrr er það Leikdeild Eflingar sem stendur að leiksýningunni og varðar rokksöngleikinn Ólafíu eftir Hörð Þór Benónýsson með tónlist eftir Jaan Alavere. Fyrir 15 árum var þetta sköpunarverk Harðar Þórs á fjölum hússins og kynni einhver að segja að væri barn síns tíma. Sem það er, það er jú svo með öll hugverk en allt það sem verkið tekur til er jafn gilt nú og þá. Á Leikhúsvefnum stendur: Söngleikurinn fjallar um líf ungs fólks í dag og áreiti sem það verður fyrir, vímuefni, útlitsdýrkun, samfélagsmiðla og tvískinnungshátt fullorðna fólksins. Nákvæmlega.

Við erum stödd í ótilgreindum heimavistarskóla sem gæti allt eins verið Framhaldsskólinn á Laugum með þeirri flóru einstaklinga sem slíkri stofnun gæða lífi með athöfnum sínum og samskiptum. Hér eins og í öllum öðrum skólum eru klíkur að finna og það er löngu kunn staðreynd að þörfin fyrir að tilheyra tekur skynseminni á stundum fram. Víkingur, feimnislegur ljúfur sveitapiltur, finnur til einsemdar og uppburðarlítill afskiptur af klíkunum. Það breytist þegar hann fær boð um að slást í hópinn með klíku Ólafíu (Reynisdóttur), sem er eldklár en óvönduð af meðulum – hún er grimmur leiðtogi í litla samfélaginu og svífst einskis, meðlimir hópsins eru metnir af sölutölum eiturefna. Við fylgjum Víkingi inn í heim eiturefna þar sem hinn óreyndi sveitapiltur hrapar í dýpstu sálarmyrkur.

Í upphafi verks eru kynnt til sögunnar annar hópur, samleigjendur á vistinni. Þar hittum við Víking raunar fyrir fyrsta sinni en svo sem áður segir stendur hann í útjaðrinum þótt viðhorf hinna krakkanna sé ólíkt því sem einkennir klíku Ólafíu. Þau eru ólík eins og við erum, viðhorfið til lífsins hjá unga fólkinu mótast af löngun til að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða, kelerí og og gælur – og þaðan af meira. Námið er ekki endilega í fyrsta sæti enda framtíðin fjarlæg og óráðin. Úr hópi nemenda er Diljá, ekki ólík Víkingi að því leyti að hafa óljósar hugmyndir um stöðu sína í tilverunni, hana má því tala til. Kolla, umboðsmaður fegurðardrottninganna, fær Diljá til þátttöku í Ungfrú Norðurland, við erum á Norðurlandi og kannski ekki fjarri Laugum? Merkjum við breytingar á Diljá sem horfir æ meira til þeirra þátta sem falla undir útlitsdýrkun. Kunnuglegt stef?

Hringamiðja verksins er þegar á öllu er á botninn hvolft heimili Ólafíu sem virðist í fyrstu vera ósköp eðlilegt og hamingjusamt heimili. Foreldrarnir, Reynir og Rósa, hafa komið á legg 2 börnum, Ólafíu og Magga, sem eru eins ólík og systkini geta verið - og er vegför Magga mikilsverður þáttur í verkinu. Hinn ungi Maggi er tengdur afa sínum og nafna, Gamla Magga, sterkum böndum. Sá gamli hefur reynt eitt og annað í lífinu, sumar sögurnar hafa heyrst innan heimilisins býsna oft svo sem má greina en annað eru gullkorn sem einkum nafni hans tekur til sín. Skjótlega fáum við aðra mynd af heimilislífinu, Reynir reynist ekki vera allur þar sem hann er séður; tvískinnungur heimilisföðurins er afhjúpaður í faðmi Sólrúnar er býr eigi fjarri. Það kemur okkar manni í opna skjöldu er hann mætir með ferðatöskuna að þar er son hans að finna í faðmi Döggu dóttur Sólrúnar.

Magnús Már Þorvaldsson 

Framangreint myndar söguna, söngleikinn Ólafíu, en hér eins og svo oft áður opinberast snilld Harðar Þórs á íslenskri tungu. Orðfimur og hittinn á hnyttin tilsvör skapa skemmtilegan grunn þessa verks ásamt vægt til orða tekið hressandi tónlist Jans, sem var jú afburðatónlistarmaður. Það eru nokkur atriði sem standa upp úr en í heild sinni er verkið vel skrifað, heldur gestinum föngnum frá upphafi til enda; þær áskoranir sem ungt fólk stendur frammi fyrir nær Hörður að fanga með listilegum hætti. 3 atriði standa upp úr að mati undirritaðs; söngur Eyrúnar er leitar svara hvort hún eigi að halda barninu eður ei, á þeirri stundu einstæð ung stúlka verðandi móðir; ásókn djöflanna í fráhvörfum Víkings hvar ungi pilturinn líður vítishvalir ásóttur af kvöldu innra sjálfi og loks dauðastund Gamla Magga. Liggjandi úr tengslum við þennan heim léttir dóttursonur hans og nafni honum dauðann með inngjöf af eiturefni sem upphaflega kom frá Ólafíu systur og barnabarni – magnað atriði.

Hrósa ber framtakinu, allir er þátt tóku stóðu sig með sóma. Leikstjóranum Hildi Kristínu tókst vel til rétt eins og á sl. ári. Sjálfsagt mun rennslið á verkinu verða enn betra eftir því sem sýningunum fjölgar en á meðan samtölin skiluðu sér vel var á stundum erfitt að greina söngtextann þar sem tónlistin var of hávær. Þetta má auðveldlega laga. Það verður ekki hjá því komist að nefna Hörð Þór aftur til sögunnar en það er mikið gleðiefni að sjá hann á sviði að nýju, 28unda sýningin sem hann tekur þátt í. Kallinn er með´etta eins og það heitir en öll skulu þau er á svið stigu fá hrós fyrir frammistöðuna og Leikdeild Eflingar fyrir að halda lífi í leiklistinni í sveitinni. Að gera Breiðumýri að Metropolitan svona öðru hverju þótt þar fái gestir aldrei viðlíka meðlæti og við fáum sitjandi við litlu hringborðin þakklát þeim sem gáfu okkur tilefni til innlits.

-Magnús Már

Nýjast