Norðurslóðir og Háskólinn á Akureyri
Hinn 29. maí sl. skrifuðu Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkis- og þróunarsamvinnuráðherra og Eyjólfur Guðmundsson, rektor Háskólans á Akureyri (HA) undir þjónustusamning sem undirstrikar enn frekar mikilvægi Akureyrar sem miðstöð norðurslóðamála á Íslandi. Samningurinn er til tveggja ára og veitir utanríkisráðuneytið fimmtíu milljónir króna til háskólans á samningstímanum sem Rannsóknarþing Norðurþings heldur utan um. Ásamt því að styðja við ýmsa viðburði sem haldnir verða hér á landi í tengslum við formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu verður fjármagnið einnig nýtt til að auðvelda og styrkja samskipti nemenda og kennara við aðrar háskólastofnanir á norðurslóðum.
Um hvað snýst norðurslóðaverkefnið?
Norðurskautsráðið var stofnað árið 1996 sem vettvangur samstarfs um sjálfbæra þróun á norðurslóðum, með virkri þátttöku frumbyggja á svæðinu. Ásamt Íslandi eru aðildarríki ráðsins eru átta; Bandaríkin, Finnland, Kanada, Danmörk, Noregur, Rússland og Svíþjóð. Auk þess eiga sex samtök frumbyggja á norðurslóðum sæti í ráðinu.
Starf ráðsins fer að miklu leyti fram innan sex vinnuhópa sem hafa lagt umtalsvert til aukinnar þekkingar á umhverfi, lífríki og samfélögum á norðurslóðum. Tveir þessara vinnuhópa, þ.e. vinnuhópur um lífríkisvernd (CAFF) og verndun hafsvæða (PAME), eru með starfsstöðvar sínar á Akureyri. Staðsetning þessara skrifstofa er í samræmi við norðurslóðastefnu Íslands þar sem áhersla er lögð á að hluti af starfsemi Norðurskautsráðsins fari fram á Íslandi.
Norðurskautsríkin skiptast á formennsku í ráðinu til tveggja ára í senn. Ísland gegnir því hlutverki í annað sinn frá vori 2019. Samhliða formennsku í Norðurskautsráðinu gegnir Ísland formennsku í strandgæsluráði norðurslóða og efnahagsráði norðurslóða á sama tímabili. Frá því Ísland tók við formennsku í Norðurskautsráðinu vorið 2019 hefur talsverð vinna, sem henni tengist, farið fram á Akureyri og er samningurinn við HA frekari viðurkenning á því góða starfi sem unnið hefur verið að í þágu norðurslóða.
Fyrir Ísland og Norðausturland
Áhuginn á norðurslóðum hefur aukist mjög síðustu ár m.a. í tengslum við rannsóknir á nýtingu auðlinda og á sviði vöruflutninga. Ísland og hafsvæðið í kring fellur að langmestu leyti innan skilgreindra marka norðurslóða og hefur Ísland þannig sérstöðu samanborið við aðrar þjóðir sem einnig eru landfræðilega að hluta til innan norðurslóða. Ísland hefur mikilla hagsmuna að gæta í hagfelldri þróun norðurslóða og fyrir landið og Akureyri sérstaklega skiptir máli að litið sé á norðurslóðir sem heildstætt svæði vistfræðilegra, efnahagslegra, pólitískra og öryggistengdra þátta. Mikilvægt er að Ísland skapi sér sérstöðu sem norðurslóðaríki og setji umhverfismálin í öndvegi en sérstaða Íslands felst meðal annars í þeim áherslum sem hafa verið hér á landi á uppbyggingu á endurnýjanlegum orkugjöfum og sérfræðiþekkingu þar að lútandi. Hér er einnig rétta að benda á mikilvæga þess að byggja upp leit og björgun sem er stórt og mikilvægt málefni í ljósi landfræðilegrar stöðu Íslands.
Fjölmargar stofnanir, vinnuhópar og samtök á sviði norðurslóðamála sem staðsett eru á Akureyri eru virkir þátttakendur í innlendu og alþjóðlegu samstarfi. Má þar nefna helst Norðurslóðanet Íslands sem vinnur náið með formennskuteymi Íslands í Norðurskautsráðinu og leiðir formennskuverkefni um jafnréttismál á Norðurslóðum undir vinnuhóp ráðsins um sjálfbæra þróun, jafnframt því að leiða sérfræðihóp um samfélags-, efnahags, - og menningarmál. Ennfremur hefur Stofnun Vilhjálms Stefánssonar unnið mikilvægt starf sem lýtur að sjálfbærri þróun á svæðinu um áratuga skeið. Sveitarfélagið hefur lengi tekið þátt í alþjóðlegu samstarfi á norðurslóðum og nú nýlega gegnt lykilhlutverki í stofnun alþjóðlegs samráðsvettvangs bæjar-, og borgarstjóra á norðurslóðum.
Nú er unnið að endurskoðun á Norðurslóðastefnu Íslands. Undirritaður situr í þeim hópi en auk þess hefur utanríkisráðherra skipað starfshóp um efnahagsþróun á Norðurslóðum. Aukin efnahagsleg umsvif á norðurslóðum veita íslenskum fyrirtækjum aukin sóknartækifæri og nýja vaxtarmöguleika. Þannig er líklegt að uppbygging og fjárfestingar, t.d. vegna samgangna, þjónustu við auðlindanýtingu og ferðaþjónustu, muni skapa sóknarfæri á Akureyri.
Í því samhengi er mikilvægt að samskipti okkar Íslendinga við Grænlendinga og Færeyinga séu góð og byggð á traustum stoðum enda deila þessi þrjú lönd ábyrgð á stóru og dreifbýlu svæði í Norður-Atlantshafi. Hagsmunir þessara landa eru nátengdir í viðskiptum, samgöngum og auðlindanýtingu á svæðinu. Þannig fellur uppbygging sjávarútvegs og innviða mjög vel að starfsemi íslenskra fyrirtækja.
Ég vil að lokum benda á nauðsyn þess að gerður sé loftferðasamningur á milli Íslands og Grænlands en á hverju ári, allt frá árinu 1976, hefur Norlandair og forverar þess ásamt öðrum íslenskum flugrekstraraðilum þurft að óska eftir leyfi frá grænlenskum stjórnvöldum til að fljúga þangað. Slíkur samningur myndi styrkja efnahagslega samvinnu Íslands og Grænlands til langrar framtíðar og mikilvægt að hið fyrsta náist árangur í þessu mikilvæga máli. Ég mun fjalla um mikilvægi þess að gerður sé loftferðasamningur við Grænland, uppbyggingu björgunarmiðstöðvar á Íslandi og uppbyggingu gervihnattaleiðsögu á norðurslóðum í grein fljótlega.
-Njáll Trausti Friðbertsson