20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Norðurorka Gætið komið til skerðingar hjá stórnotendum verði veturinn harður
„Ef við lendum í svipuðu kuldakasti seinna í vetur þá er útlitið á þann veg að við gætum þurft að skerða afhendingu á heitu vatni til stórnotenda, því þegar búið er að vera mjög kalt þá lækkar í svæðunum okkar og við getum ekki dælt eins miklu vatni úr þeim,“ segir Pétur Freyr Jónsson yfirvélfræðingur hjá Norðurorku. Heitavatnsnotkun eykst mjög á köldum dögum líkt og var um og fyrir síðustu helgi og álag á kerfið eykst.
Mögulegur skortur á heitu vatni ef veturinn yrði kaldur hefur verið til umræðu hjá stjórn Norðurorku og viðraðar voru áhyggjur starfsfólk af því að ekki yrði hægt að anna eftirspurn eftir heitu vatni við þær aðstæður.
Mismunandi áskoranir eftir svæðum
Pétur segir áskoranir hitaveitunnar mismunandi á milli svæða. Þannig glími hitaveitan á Akureyri við öflunarvanda en lítinn dreifikerfisvanda. „Ef við náum að afla nógu af heitu vatni úr borholum okkar þá gengur ágætlega að dreifa því til notenda bæjarins,“ segir hann. Sama er uppi á teningunum varðandi Ólafsfjörð þar sem Pétur segir að komið sé að þolmörkum varðandi öflun vatns og til þess gæti komið að skammta þyrfti heitt vatn í bænum verði veturinn harður.
Í sveitunum er annars konar áskorun á ferðinni sem tengist dreifikerfinu. Reykjaveita, Eyjafjarðaveita vestan megin og austan megin, Svalbarðstrandaveita og Hríseyjarveita glíma við þennan vanda. „Það verður mikið þrýstifall á löngum leiðum þegar vatnsþörfin verður mikil eins og hefur verið síðustu daga og notendur verða varir við lækkaðan þrýsting. Sumstaðar erum við að leggja sverari lagnir þar sem við á og annars staðar setjum við upp dælur til að ná upp þrýsting,“ segir Pétur.
Hann nefnir að þegar kalt var í veðri var meira vatn tekið frá Hjalteyri en ákjósanlegt er, en vísbendingar er um að aukið klóríð sé í vatninu þaðan og það eykst við aukna dælingu.
Virkar eins og bankabók
Hitaveitusvæðin á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit, Laugalandi á Þelamörk, Botni við Hrafnagil og upp í Glerárdal voru í hámarksafköstum í kuldakastinu, en samt rétt náðist að halda vatnshæð í tönkunum.„Ef við lendum í svipuðu kuldakasti seinna í vetur lítur allt út fyrir að við munum þurfa að skerða afhendingu á heitu vatni til stórnotenda því þá verður lægra í svæðunum okkar heldur en nú er og við getum ekki dælt eins miklu vatni úr þeim,“ segir Pétur, en dæling úr borholum er háð vatnshæð og þegar vatnsborðið í svæðunum lækkar minnkar dælingin frá þeim. „Laugaland í Eyjafjarðarsveit og Laugaland á Þelamörk virka eins og bankabók. Það skiptir ekki bara máli að fara vel með heita vatnið yfir vetrartímann heldur allt árið um kring. Allt það vatn sem við getum sparað yfir t.d. sumarið það eigum við inni fyrir næsta vetur.“