Njáll Trausti Friðbertsson Fimm fyrstu dagarnir ókeypis

Akureyri séð úr lofti.  Mynd  Njáll Trausti
Akureyri séð úr lofti. Mynd Njáll Trausti

Njáll Trausti Friðbertsson,  þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi, skrifar á Facebook um fyrirhugaða gjaldtöku vegna notkunar á bílastæðum á flugvöllunum.   Í þessari grein  skilgreinir Njáll vandamálið eins og það snýr að honum og upplýsir hvernig hann telur best er að leysa stöðuna.  Þingmaðurinn hvetur ráðherran sem með málið fer til þess að gera þannig samning  við ISAVIA að gjaldtaka hefjist ekki fyrr en eftir fimm daga í minnsta á bílastæðunum á Akureyrar-, Egilsstaðar- og Reykjavíkurflugvelli.

 Pistill Njáls er annars svohljóðandi:

,,Það hefur löngum þótt dýrt að fljúga innanlands og með tilkomu fyrirhugaðra bílastæðagjalda leggjast enn frekari álögur á flugfarþega í innanlandsflugi. Vandamálið sem líklega er verið að reyna að sporna við er það að bílum sé ekki lagt á flugvöllunum vikum eða mánuðum saman. Ég hef séð það persónulega þegar bílum er lagt til vetrardvalar, sem gengur auðvitað ekki upp og eðlilegt væri að yrði rukkað fyrir því það er mikilvægt að bílastæðin nýtist sem allra best fyrir flugfarþega.

Fjármálaráðherra hefur nú sagt að þessi gjaldtaka megi hefjast en beinir því til stjórnar að taka tillit til þeirra sem fara í dagsferð í læknisheimsókn. Þetta skilningsleysi á stöðunni er í besta falli hjákátlegt enda verður ógerningur fyrir kerfið að vita hvaða bílnúmer eru komin til að fara í nauðsynlega læknisheimsókn og hver ekki. Það er ekki skynsamlegt ef farþegar þurfa að skila inn upplýsingum, t.d. læknisvottorði, og fá svo endurgreidd bílastæðagjöldin.

Mín ágiskun er sú að um 80-90% af bílastæðagjöldunum verði greidd af íbúum á Norður- og Austurlandi. Ég hef ekki forsendur til að reikna hverju þetta mun skila Isavia Innanlands en mín ágiskun er á bilinu 40-70 milljónir á ári. Ef markmiðið er að sporna við þeim sem geyma bílana sína til lengri tíma væri mun skynsamlegri leið að hafa t.d. gjaldfrjáls bílastæði í 5-7 daga áður en mælirinn byrjar að telja.

Njáll Trausti  Friðbertsson 

Ég hvet ráðherrana sem gera samninginn við Isavia innanlandsflugvelli til þess að breyta samningnum með þeim hætti að gjaldtakan hefjist ekki í það fyrsta fyrr en eftir fimm daga í það minnsta á bílastæðunum á Akureyrar-, Egilsstaðar- og Reykjavíkurflugvelli."

 


Athugasemdir

Nýjast