6. nóvember - 13. nóvember - Tbl 45
Niceair fellir niður öll flug til Bretlands í júní
Niceair hefur tekið ákvörðun um að aflýsa fyrirhuguðum flugferðum til Bretlands í júní. Vandkvæði hafa komið upp við áætlunarflug til Bretlands og því hefur þessi ákvörðun verið tekin. Flugferðirnar til Bretlands verða ekki bókanlegar fyrr en varanleg lausn er komin á. Þetta kemur fram í tilkynningu sem mbl.is greindi fyrst frá.
Öllum farþegum verður boðin endurgreiðsla, og þeim sem vilja hjálpað að komast á áfangastað erlendis eða heim aftur.
„Eftir því sem næst verður komist felst vandinn m.a. í því að Ísland er með tvíhliða samning við Bretland um flugþjónustu og Bretland er með sams konar samning við Evrópusambandið. Þessir tveir samningar skarast í Bretlandi. Vandamálið byrjar þegar flytja á farþega frá Bretlandi til Íslands af flugrekanda með heimilisfesti í Evrópusambandinu (en ekki í Bretlandi eða á Íslandi),“ segir í tilkynningunni.
Í tilkynningunni segir að önnur flug hafi fengið mjög vel. Þannig hafi ekki komið upp nein vandamál í tengslum við flug til Danmerkur og Tenerife. Þeir áfangastaðir eru innan EES svæðisins.
„Við höfum unnið sleitulaust að lausnum og lagt mikið af útfærslum á borð breskra yfirvalda. Við gerð tillagna höfum við notið öflugs liðsinnis Samgöngustofu, Utanríkisráðuneytis og breska sendiráðsins, en allt komið fyrir ekki. Framundan er helgi í Bretlandi og það að heyra á Bretum að ólíklegt sé að sú lausn sem er á borðinu verði samþykkt í tæka tíð vegna skorts á tíma og mannafla.“
Niceair mun halda áfram viðræðum við bresk stjórnvöld og miða að farsælli lausn málsins sem allra fyrst.
„Okkar forgangsmál er að valda farþegum okkar sem minnstri röskun og hörmum við mjög þau óþægindi sem þetta kann að valda. Þetta var ófyrirsjáanlegt og ekki á okkar valdi að breyta.“