Dagskráin 18.desember - 8.janúar 2025
Nemendur í Grenivíkurskóla styrkja Velferðarsjóð
mth@vikubladid.is
„Þetta er alveg frábært framtak. Auðvitað erum við þakklát fyrir alla styrki, en það er eitthvað alveg sérstakt við þetta. Flottir krakkar með flott verkefni!“ segir Herdís Helgadóttir formaður Velferðarnefndar Eyjafjarðar
Krakkar á miðstigi í Grenivíkurskóla, í 5. 6. og 7. bekk afhentu sjóðnum 430 þúsund krónur í Glerárkirkju á Akureyri í morgun. Þeir unnu að verkefni nú í haust sem snérist um að skrifa bækur undir leiðsögn kennara sinna, hver nemandi skrifaði eina bók. Þegar bækurnar voru til var opnuð bókabúð og bækurnar boðnar til sölu. Bókaútgáfan var kölluð Þengilhöfði.
Verkefnið reyndi á ritun, stafsetningu, málfræði, hönnun, umbrot, bókhald, markaðssetningu, framsögu, samskipti, samvinnu, sagnfræði, bókmenntir, myndmennt, upplýsingatækni og ýmislegt fleira. Það hlaut styrk út sprotasjóði Rannís.
Herdís Helgadóttir formaður Velferðarsjóðs Eyjafjarðar og Ari Logi nemandi í Grenivíkurskóla sem afhenti styrkinn.
Yfir 500 umsóknir
Herdís segir að féð komi sér mjög vel, en yfir 500 umsóknir bárust um aðstoð úr Velferðarsjóði nú fyrir jólin. „Nú erum við að hnýta síðustu hnútana og jólaúthlutun að ljúka. Við þurfum hins vegar að safna fé fyrir allt árið, fólk óskar aðstoðar líka aðra mánuði ársins. Neyðin hefur því miður aukist og við vonum svo sannarlega að fólk leggist á árar með okkur þannig að hægt verði að veita aðstoða allt næsta ár,“ segir hún.