Næturævintýri miðaldra hjóna
Eitt kvöldið í vor þegar farið var að dimma og við gömlu hjónin ætluðum að fara að sofa, höfðum smellt nátthúfunum á silfurgráa kollana og gervitennurnar svömluðu í vatnsglösunum á náttborðunum, kallaði eiginkonan í mig af efri hæðinni og fullyrti að slökkviliðsmenn væru uppi á þaki Icelandair-hótelsins.
Næstu mínúturnar rýndum við út um gluggann yfir götuna. Ekki var mikil hreyfing á slökkviliðinu. Þegar komið var fram yfir miðnætti höfðum við fundið út að sennilega væru þetta sérsveitarmenn í leynilegum umsátursaðgerðum því að þeir voru í felubúningum auk þess sem ekkert fannst um aðgerðirnar á netinu. Datt okkur ýmislegt í hug um orsakir þeirra enda aðkomufólk í bænum með allri þeirri ógn sem af því stafar.
Um hálftvöleytið var varðstöðunni á þakinu hvergi nærri lokið en við farin að geispa innilega og ákváðum því að fara í rúmið. Vorum við lengi að komast í draumalandið eftir alla spennuna.
Þegar við vöknuðum og litum út um gluggann til að forvitnast um framvindu aðgerða var engin víkingasveit sýnileg á hótelþakinu. Morgunsólin lýsti á hinn bóginn upp toppana á öspum handan hótelsins sem voru það hávaxnar að þær stóðu upp fyrir þakbrúnina.
Í sunnanblænum veifuðu þær til miðaldra hjóna á syðri brekkunni sem áttu þeim þessa æsilegu vornótt að þakka.
-Svavar Alfreð Jónsson