MÖMMUR OG MÖFFINS GÁFU FÆÐINGARDEILD RÍFLEGA 1,2 MILLJÓNIR KRÓNA

Mömmur og möffins afhentu fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri veglega upphæð, ríflega 1,2 milljón …
Mömmur og möffins afhentu fæðingadeild Sjúkrahússins á Akureyri veglega upphæð, ríflega 1,2 milljón króna sem er afrakstur af samnefndum viðburði sem jafnan er haldin í Lystigarðinum um verslunarmannahelgi. Frá vinstri eru Anna Sóley Cabrera, Katrín Þóra Jónsson, Ingibjörg Jónsdóttir yfirljósmóðir sem tók við gjöfinni, Erna Sigrún Hallgrímsdóttir, Lína Björg Sigurgísladóttir, Dóra Sif Indriðadóttir, Bryndís Björk Hauksdóttir og Sigríður Ásta Pedersen. Aðrar hetjur sem lögðu hönd á plóg voru Kristrún Hallgrímsdóttir, Jóna Bergrós Gunnlaugardóttir, Helga Dögg Sverrisdóttir, Helga Fanney Benediktsdóttir, Izadora Gonzalez Alves Vaz, Hákon Freyr Benediktsson, og Elísabet Anna Bjarnadóttir

Fulltrúar í söfnuninni Mömmur og möffins komu færandi hendi á fæðingardeild Sjúkrahússins á Akureyri með afrakstur bollakökusölu í Lystigarðinum um verslunarmannahelgi. Að þessu sinni safnaðist 1.228.000 krónur og hefur upphæðin aldrei verið hærri.

„Þær voru orðlausar yfir þessu, þessi upphæð kom þeim í opna skjöldu,“ segir Lína Björg Sigurgísladóttir sem hafði umsjón með viðburðinum í ár og á við forsvarsmenn fæðingardeildar.  Hún segir að í allt hafi selst um 1.800 bollakökur en vaskur flokkur kvenna sem stóð í eldlínunni nú í sumar hafði bakað alls 2.500 möffinskökur. „Það fór ekkert til spillis, við fórum með kökur á Hlíð þar sem íbúarnir nutu veitinganna af bestu lyst og eins fór talsvert í kistuna hjá Matargjöfum á Akureyri. Þannig að umframbirgðir komu sér vel,“ segir Lína Björg.

Sjálfboðaliðar á bak við verkefnið, bakstur og sölu voru um 15 talsins og segir hún að það hefði vissulega verið vel þegið að hafa fleiri hendur til taks. „Þetta er mikil vinna og en allt gekk vel,“ segir hún.

Mömmur og möffins hefur verið fastur liður í verslunarmannahelgardagskránni á Akureyri og jafnan vinsæll viðburður. Lína Björg segir að hann reki sögu sína til ársins 2010, en kóvidárin tvö, 2020 og 2022 féll hann niður í Lystigarðinum. Bollakökur bakaðar í bakaríum bæjarins voru engu að síður seldar og ágóði gefin fæðingardeildinni að venju. „Salan hefur þrisvar sinnum farið yfir eina milljón en aldrei áður hefur safnast svona há upphæð. Við erum mjög ánægðar með hvernig til tókst og að deildin hafi þessa peninga til ráðstöfunar.“

Á liðnu ári söfnuðust tæplega 900 þúsund krónur og fyrir þá upphæð var keyptur nýr þráðlaus og vatnsheldur Monitor sem einmitt kom í hús á deildinni í liðinni viku.

Nýjast