20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Millilandaflug um Akureyrarflugvöll frá tveimur stöðum í Evrópu í sumar
„Þetta er góð viðbót og skiptir ferðaþjónustu hér á norðanverðu landinu miklu máli,“ segir Arnheiður Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Markaðsstofu Norðurlands. Millilandaflug tveggja félaga verður um Akureyrarflugvöll í sumar. Annars vegar er það flug Transavia með ferðafólk á vegum hollensku ferðaskrifstofunnar Voigt Travel og hins vegar flugfélagið Edelweiss sem flýgur á mili Zurich og Akureyrar.
Arnheiður segir að sumarið líti vel út og fólk sé fyrirfram þokkalega bjartsýnt þó vissulega megi segja að blikur séu á lofti í ferðaþjónustu. „En það skiptir okkur hér í þessum landsfjórðingi miklu máli að fá farþega beint inn á svæðið og því erum við spennt fyrir því sem framundan er í sumarfluginu,“ segir hún.
Fyrsta flugið frá Hollandi í næstu viku
Fyrsta flugvél hollenska flugfélagsins lendir á Akureyrarflugvelli á fimmtudag í næstu viku, 6. júní. Ferðir verða svo í boði alla fimmtudaga milli Akureyrar og Rotterdam fram til 5. september. Félagið byrjað með þetta flug árið 2019, en ef frá er talið kóvidhlé má segja að þetta sé fjórða árið sem millilandaflug er í boði á þessum legg. Hollendingum á ferð um Norðurland hefur fjölgað frá því farið var að bjóða þetta beina flug og gildir það fyrir allt árið.
Þá byrjar svissneska flugfélagið Edelweiss að fljúga beint á milli Zurich í Sviss og Akureyrar þann 21. júní næstkomandi og flýgur einu sinni viku, á föstudögum út ágústmánuði. Þetta er annað árið í röð Edelweiss býður beint flug á milli Akureyrar og Zurich. Arnheiður segir að heimamenn geti nýtt flugið en góð tengiflug séu í boði um alla Evrópu þegar komið er til Sviss. „Það er m.a. vinsælt að fara til Ítalíu og margir sem ætla að nýta sér það.“
Arnheiður segir að sætaframboð flugfélaganna sé um það bil 2000 sæti hjá hvoru félagi, um 400 sæti í heild og að bókanir hafi gengið vel. „Vélarnar eru vel bókaðar og það er greinilegt að fólk vill nýta sér þennan valkost, að fljúga beint á Norðurland,“ segir hún.
Fyrsta ferð Transavia verður i næstu viku