„Mikilvægast að hafa húmor fyrir öllu saman“
„Viðtökurnar hafa verið alveg ótrúlegar og virkilega gaman að geta boðið upp á svona gleðibombu eftir allt sem hefur gengið á undanfarna mánuði. Við erum líka svo glöð að sjá hvað fólk er duglegt að mæta í leikhúsið eftir þennan langa menningardvala,“ segir Birna Pétursdóttir leikkona. Hún ásamt Vilhjálmi B. Bragason og Árna Beinteini Árnasyni standa að gamanleiknum Fullorðin sem Leikfélag Akureyrar sýnir um þessar mundir í Menningarhúsinu Hofi. Sýningin hefur slegið í gegn og fengið fína dóma. Vegna eftirspurnar hefur þurft að bæta við sýningum fram í apríl og verður haldið áfram að bæta við eftir þörfum. Leikarar sýningarinnar þau Birna, Árni og Vilhjálmur eru einnig höfundar verksins þar sem þau fjalla á sprenghlægilegan hátt um grátbroslegar hliðar þess að fullorðnast, pressuna um að vera með allt á hreinu, eiga fasteign, vera með menntun, góða vinnu, eiga maka og börn - því annars er lífið misheppnað. Vikublaðið ræddi við Birnu um sýninguna og hana sjálfa.