„Merkileg stund fyrir alla bæjarbúa“

„Við erum búin að bíða eftir þessu í 25 ár eða allt frá því að Listasafnið opnaði,“ segir Hlynur Hal…
„Við erum búin að bíða eftir þessu í 25 ár eða allt frá því að Listasafnið opnaði,“ segir Hlynur Hallsson. Mynd/Þröstur Ernir

Á laugardaginn kemur, þann 25. ágúst, verða dyr Listasafnsins á Akureyri opnaðar að nýju eftir stórfelldar endurbætur og stækkun á húsakynnum þess. Sýningarsalir voru áður fimm en eru nú tólf. Að auki verður nýtt kaffihús opnað á safninu og safnbúð.

Framkvæmdir við endurbæturnar hafa staðið yfir í rúmt ár og safnið að mestu verið lokað gestum og gangandi á þeim tíma. Sýningarhald hefur engu að síður verið stöðugt þar sem aðalsýningarrýmið færðist yfir í Ketilhúsið. Með endurbótunum verða byggingarnar tvær sameinaðar með tengibyggingu.

Gott aðgengi stærsta breytingin
Hlynur Hallsson, safnstjóri, segir mikil tímamót framundan. „Þetta er merkileg stund fyrir alla bæjarbúa. Húsið er auðvitað áberandi í miðbænum og það var kominn tími á að gera það upp. Við erum búin að bíða eftir þessu í 25 ár eða allt frá því að Listasafnið var opnað. Því að þá strax var rætt um að flytja upp á efstu hæðina sem nú hefur verið gert.“

Hlynur segir að stærstu breytingarnar séu gott aðgengi. Nú sé aðalinngangurinn á jarðhæð og einnig lyfta í húsinu. „Hreyfihamlaðir eða fólk með barnavagna kemst allra sinna ferða í húsinu. Þetta er mikil og þörf breyting. Salernin hafa líka tekið miklum breytingum og svo höfum við mun fleiri sali til sýninga. Okkur hafði lengi dreymt um að komast upp á efstu hæðina í lofthæðina sem þar er og einnig er mjög vítt til veggja á þeirri hæð. Svo er frábært að fá kaffihús og safnbúð á Listasafnið. Þetta verður því skemmtilegur staður til að heimsækja.“

Fjörmikil dagskrá á opnunardaginn
Á laugardaginn verða opnaðar sex nýjar sýningar í safninu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur ávarp, sömuleiðis Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Ásthildur Sturludóttir nýr bæjarstjóri á Akureyri og Hlynur Hallsson safnstjóri. Fjörmikil dagskrá með veitingum og tónlistaratriðum verður á opnunardaginn frá kl. 15-23. 

Listamennirnir sem opna sýningar í safninu eru: Aðalheiður S. Eysteinsdóttir, Sigurður Árni Sigurðsson, Hjördís Frímann og Magnús Helgason. Einnig verða opnaðar sýningar á verkum úr safneignum Listasafnsins á Akureyri og Listasafns ASÍ, og ljósmyndasýningin Frá Kaupfélagsgili til Listagils. 

Skiptar skoðanir um framkvæmdina
Framkvæmdirnar á Listasafninu eru þó ekki óumdeildar í bæjarfélaginu. Endurbæturnar kosta alls um 700 milljónir kr. og er það um 200 milljónum meira en upphafleg kostnaðaráætlun gerði ráð fyrir. Spurður út í umræðuna um framkvæmdina segir Hlynur að hún sé vel skiljanleg.

„Umræðan á alveg rétt á sér og hefur ekkert verið ósanngjörn. Það er eðlilegt að skiptar skoðanir séu um í hvað peningarnir fara og þá sérstaklega þegar um svona stórar framkvæmdir eru að ræða. En það er staðreynd að það þurfti að gera eitthvað fyrir húsnæðið, sem er alltaf kostnaðarsamt. Það kostar að búa til flott og endurbætt Listasafn en þetta eru peningar sem koma margfalt til baka. Ég er alveg sannfærður um það.“ 

Hlynur bendir á að framkvæmd Menningarhússins Hofs hafi verið afar umdeild á sínum tíma. „En flestir eru sammála um ágæti hússins í dag. Ég tel það fagnaðarefni að farið hafi verið í þessar veigamiklu framkvæmdir á Listasafninu sem mun gera mikið fyrir bæjarfélagið.“

Nýtt og endurbætt Listasafn hefur tekið töluverðum breytingum.

Segir áhuga bæjarbúa mikinn
Spurður segir Hlynur áhuga almennra bæjarbúa á Listasafninu vera töluverðan. „Hann er mjög mikill myndi ég segja og það leynir sér ekki
að á Akureyri ríkir mikil eftirvænting eftir að sjá nýtt listasafn. Fólk er mikið að velta þessu fyrir sér. Það hefur orðið mikil aukning á því að skólahópar komi á safnið reglulega að skoða sýningar með kennurum og einnig hefur aðsókn ferðamanna aukist töluvert yfir sumartímann. Ég á von á því að áhuginn haldi áfram að aukast með endurbættu listasafni.“ Hlynur er sjálfur spenntur fyrir komandi tímum. „Þetta
er algjör draumur fyrir mig að fá að taka þátt í þessu. Ferlið allt hefur verið mjög spennandi.“

Safnið fagnar 25 ára afmæli
Um þessar mundir er einnig fagnað 25 ára afmæli Listasafnsins með vikulangri opnunar- og afmælisdagskrá þar sem verður m.a. boðið upp á listamannaspjall, leiðsögn, jazz tónleika og ljóðalestur. Í tilefni af opnun nýrra salarkynna Listasafnsins verður enginn aðgangseyrir frá opnun til og með sunnudeginum 2. september. Eftir það verður aðgangseyrir kr. 1.500. Árskort safnsins verður til sölu í nýju safnabúðinni og kostar 2.500 kr.

„Ég vona að sem flestir Akureyringar komi og sjái nýtt og glæsilegt safn,“ segir Hlynur Hallsson.

Nýjast